Sprenging á aðallestarstöð Kaíró

Samkvæmt yfirvöldum kom eldurinn upp vegna áreksturs lestar við steyptan …
Samkvæmt yfirvöldum kom eldurinn upp vegna áreksturs lestar við steyptan höggdeyfi á Ramses-lestarstöðinni. AFP

Hið minnsta tuttugu eru látnir og 40 slösuðust þegar mikill eldur braust út á aðalbrautarstöð Kaíró, höfuðborgar Egyptalands.

Samkvæmt egypskum yfirvöldum kom eldurinn upp þegar lestin ók á steyptan höggdeyfi á Ramses-lestarstöðinni í miðborg Kaíró. Í frétt BBC segir að eldsneytistankur lestarinnar hafi sprungið við áreksturinn með þeim afleiðingum að kviknaði í brautarpallinum og nærliggjandi byggingum.

Fjöldi sjúkra- og slökkviliðsbíla er á vettvangi og segjast vitni hafa séð lestina á mikilli ferð þegar hún ók á. Fólk reyndi að forða sér á hlaupum en eins og áður segir létust að minnsta kosti 20 og 40 særðust.

Lestakerfi Egyptalands þykir ekki sérlega öruggt og kenna landsmenn um takmarkaðri fjárfestingu í kerfinu. 43 létust og yfir 100 slösuðust þegar tvær farþegalestir rákust saman skammt frá hafnarborginni Alexandríu í ágúst 2017, en mannskæðasta slysið varð árið 2002 þegar kviknaði í ofhlaðinni farþegalest skammt frá Kaíró. 370 létu lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert