Boeing dregur úr framleiðslu 737 véla

Boeing 737 MAX 8-farþegaþota. Fyrirtækið ætlar að minnka framleiðslu sína …
Boeing 737 MAX 8-farþegaþota. Fyrirtækið ætlar að minnka framleiðslu sína á 737 vélum á meðan unnið er á uppfærslu á Max útgáfu þeirra. AFP

Boeing flugvélaframleiðandinn ætlar að draga úr framleiðslu sinni á Boeing 737 flugvélum um tíu vélar á mánuði á meðan það vinnur að endurbótum á Max útgáfu vélanna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu, en Boeing 737 Max 8 farþegaþotur komu við sögu í tveimur mannskæðum flugslysum sem átt hafa sér stað undanfarna mánuði.

Reuters fréttastofan hefur eftir Dennis Muilenburg, forstjóra Boeing að framleiddar verði 42 flugvélar af 737 gerðinni á mánuði í stað 52 véla áður. Boeing 737 Max flugvélar hafa verið kyrrsettar um heim allan í kjölfar þess að vél Ethiopian Airlines hrapaði í síðasta mánuði og segir BBC ákvörðun flugvélaframleiðandans vera viðbrögð við því.

Sagði Muilenburg Boeing nú vita hvaða atvikaröð olli því að farþegaþotur indónesíska Lion Air flugfélagsins og eþíópíska flugfélagsins Ethiopian Airlines hröpuðu eftir að villa kom upp í MCAS hugbúnaðinum, sem tengist hæðarstýri vélarinnar.

Þá sagði hann fyrirtækinu ganga vel að gera þær uppfærslur á hugbúnaðinum að koma megi í veg fyrir að „slys á borð við þessi gerist nokkurn tímann aftur. Það er á okkar ábyrgð að útiloka þessa áhættu og við vitum hvernig við eigum að gera það,“ sagði í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert