Forsprakkar regnhlífabyltingarinnar dæmdir

Hópur aðgerðasinna í Hong Kong á yfir höfði sér fangelsisdóm eftir að hafa verið dæmdur sekur fyrir ólögleg mótmæli og aðild að skipulögðum fjöldamótmælum í borginni mánuðum saman árið 2014.

Á meðal þeirra sem voru í fylk­ing­ar­brjósti í fjölda­mót­mæl­un­um eru námsmaður, pró­fess­or­ar, bapt­ista­prest­ur og fé­sýslumaður.

Niðurstaða réttarhaldanna þykir ýta styrkari stoðum undir áhyggjur fólks um að kínversk yfirvöld séu að herða tökin í fjármálaborginni og að þau vilji hafa enn meira að segja um rekstur hennar.

Níu aðgerðasinnar voru dæmdir í dag fyrir aðild í mótmælum árið 2014 sem kennd hafa verið við regnhlífar. Þar fóru mótmælendur fram á frjálsar kosningar um næsta leiðtoga borgarinnar.

Flest­ir þeirra sem tóku þátt í mót­mæl­un­um voru náms­menn og fólk sem kenn­ir sig við Occupy-hreyf­ing­una sem hófst í Banda­ríkj­un­um. 

Þúsund­ir mót­mæl­enda sváfu á göt­un­um í viðskipta­hverf­inu og þóttu þeir sér­lega agaðir og hæ­versk­ir í fram­komu. Þeir hreinsuðu meðal annars allt rusl á göt­un­um til að koma í veg fyr­ir að það safn­aðist upp og gáfu sér tíma til að flokka það.

Einu verj­ur mót­mæl­end­anna voru regn­hlíf­ar sem þeir notuðu til að verj­ast rign­ingu, geisl­um sól­ar­inn­ar og piparúða sem lög­regla borg­ar­inn­ar beitti. Mót­mæl­in hafa því verið kölluð „regn­hlíf­a­bylt­ing­in“.

Á meðal þeirra sem voru í fylk­ing­ar­brjósti í mót­mæl­un­um er Benny Tai, laga­pró­fess­or og einn stofn­enda Occupy-hreyf­ing­ar­inn­ar í Hong Kong. Á meðal annarra sem stofnuðu Occupy-hreyf­ing­una í Hong Kong  er Chan Kin-man, fyrr­ver­andi fé­lags­fræðipró­fess­or. 

Aldraður bapt­ista­prest­ur, Chu Yiu-ming, hafði beitt sér fyr­ir lýðræðis­um­bót­um í um það bil ára­tug þegar hann tók þátt í stofn­un Occupy-hreyf­ing­ar­inn­ar. Hann stjórnaði leyni­leg­um aðgerðum til að hjálpa kín­versk­um and­ófs­mönn­um að kom­ast hjá hand­töku og sak­sókn. Hann skaut yfir þá ör­uggu skjóls­húsi í Hong Kong og hjálpaði þeim að sækja um hæli er­lend­is.

Bapt­ista­prest­ur­inn hóf bar­átt­una eft­ir fjölda­morðin í Pek­ing árið 1989 þegar mót­mæl­in á torg­inu við Hlið hins him­neska friðar voru kveðin niður. „Ég gat ekki tára bund­ist,“ sagði hann í viðtali fyrir nokkrum árum. „Ég fór með bæn: Guð, hvað get­um við gert?“

Á meðal annarra í Occupy-hreyf­ing­unni er stjórn­andi vog­un­ar­sjóðs, Edw­ard Chin, sem er á meðal fé­sýslu­manna sem hafa tekið þátt í bar­átt­unni fyr­ir lýðræði.

Chan Kin-man, Benny Tai og Chu Yiu-ming eru meðal þeirra sem voru dæmdir sekir í dag og eiga þeir allir yfir höfði sér fangelsisdóm. Er talað um að þeir verði jafnvel dæmdir í allt að sjö ára fangelsi fyrir brot sitt. 

Chu Yiu-ming, Benny Tai , Chan Kin-man og fleiri mótmælendur …
Chu Yiu-ming, Benny Tai , Chan Kin-man og fleiri mótmælendur sem réttað var yfir í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert