Trump óskar Netanyahu til hamingju

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi …
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi í Hvíta húsinu í mars. Trump sendi Netanyahu hamingjuóskir í dag þegar ljóst var að niðurstöður þingkosninganna í Ísrael gera Netanyahu kleift að mynda nýja ríkisstjórn til hægri. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir kosningasigur Netanyahu auka líkurnar á því að áætlun Bandaríkjanna um að skapa frið milli Ísraels og Palestínu eigi frekar möguleika á að ganga eftir með Netanyahu við stjórnvölinn.

„Ég vil óska Bibi Netanyahu til hamingju,“ sagði Trump á fundi með fjölmiðlafólki í dag eftir að ljóst var að niðurstöður þingkosninganna gera Netanyahu að öllum líkindum kleift að mynda nýja ríkisstjórn til hægri.

Friðaráætlunin felur í sér svokallaða tveggja ríkja lausn, það er að stofnað verði sjálfstætt ríki í Palestínu. „Allir segja að friður sé ómögulegur í Mið-Austurlöndum milli Ísraels og Palestínu. Ég held að það sé mögulegt og ég held að líkurnar séu betri núna,“ sagði Trump.

Trump hefur verið hliðhollur Netanyahu í forsetatíð sinni, ekki síst með því að viður­kenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísra­els. Nýverið und­irritaði hann svo yf­ir­lýs­ingu þar sem fram kem­ur að Banda­rík­in viður­kenni Gól­an­hæðir sem hluta af Ísra­el.

mbl.is