May þakkar fyrir handtöku Assange

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, þakkaði Lundúnalögreglunni fyrir fagmennsku við handtöku …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, þakkaði Lundúnalögreglunni fyrir fagmennsku við handtöku Assange. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tjáði sig um handtöku Julian Assange stofnanda uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks, í breska þinginu í dag.

Assange var handtekinn í morgun í sendiráði Ekvador í London, en May var stödd í þinginu til að kynna því niðurstöður nýjustu samningaviðræðna sinna við ESB um frestun á útgöngu Breta úr Esb.

„Ég er þess fullviss að þingið allt mun fagna þeim fréttum að Lundúnalögreglan er búin að handtaka Julian Assange,“ sagði May.

Assange hefði verið handtekinn fyrir brot á dómsúrskurði eftir að hann hafði verið látinn laus gegn greiðslu tryggingu. „Hann hefur líka verið handtekinn í tengslum við framsalsbeiðni frá Bandaríkjunum og þetta er nú mál fyrir dómstólana,“ sagði May og kvað Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands munu flytja yfirlýsingu um handtöku Assange síðar í dag.

Sjálf vildi hún hins vegar þakka Lundúnalögreglunni fyrir að sinna verkinu af fagmennsku og ríkisstjórn Ekvador fyrir að leysa málið. „Þetta sýnir að enginn í Bretlandi er ofar lögum,“ sagði May.

Hélt sendiráðinu í gíslingu

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag að Assange væri ekki búinn að vera í gíslingu í sendiráðinu. Heldur hafi hann haldið sendiráðinu í gíslingu og að staðan hafi verið fullkomlega óþolandi fyrir starfsfólk sendiráðsins.

„Nú verður tekið á málinu almennilega og óháð af breska réttarkerfinu sem er virt um heim allan fyrir sjálfstæði sitt og ráðvendni,“ sagði Hunt í yfirlýsingu sinni og kvað viðræður um stöðu Assange hafa staðið yfir árum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert