Þrjú dauðsföll til viðbótar á Everest

Fjallgöngumenn á leið niður Everest í lok apríl í fyrra.
Fjallgöngumenn á leið niður Everest í lok apríl í fyrra. AFP

Þrír fjallgöngumenn til viðbótar hafa látist á Everest, að sögn skipuleggjenda og yfirvalda, og þar með hafa sjö látið lífið á fjallinu undanfarna daga.

Yfirvöld í Nepal hafa gefið út 381 leyfi til að ganga upp á fjallið þetta vorið og kostar hvert þeirra tæpar 1,4 milljónir króna. Maí er talinn besti mánuðurinn til að komast á tind Everest. Fyrir vikið hafa stíflur myndast á leiðinni eftir að slæmt veður kom í veg fyrir að fjallgöngumenn gætu klifið fjallið.

„Tveir Indverjar til viðbótar hafa látist á Everest í dag,“ sagði Mira Acharya, talsmaður ferðamáladeildar Nepals.

Skipuleggjendur staðfestu svo þriðja dauðsfallið. Kalpana Das, 52 ára, komst upp á tindinn en lést í gær á leiðinni niður, á sama tíma og fjöldi fjallgöngumanna beið í röð eftir því að komast á toppinn.

Annar indverskur fjallgöngumaður, Nihal Bagwan, sem var 27 ára, lést á leiðinni niður. „Hann var fastur í biðröð í rúmar 12 klukkustundir og var örmagna. Sjerpar báru hann niður að fjórðu búðum þar sem hann lést,“ sagði Keshav Paudel hjá Peak Promotion.

Austurrískur fjallgöngumaður lést á norðurhlið fjallsins, Tíbetmegin, að sögn skipuleggjenda.

Ang Tsering Sherpa, fyrrverandi forseti nepalska fjallgöngusambandsins, sagði að veðurglugginn til að komast á tindinn væri lítill, sem þýðir að margir hópar bíða enn eftir því að komast upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert