Út í október með eða án samnings

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Verði hann næsti forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins hyggst Boris Johnson leiða Breta út úr Evrópusambandinu í lok október þegar gert er ráð fyrir útgöngunni hvort sem samið hafi verið um hana við sambandið eða ekki.

Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en Johnson þykir einna sigurstranglegastur í leiðtogakjöri sem fyrirhugað er innan Íhaldsflokksins í kjölfar ákvörðunar Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga flokksins, að segja af sér.

Einungis nokkrum klukkustundum eftir að May tilkynnti um afsögn sína í gær, sem taka mun gildi 7. júní, tilkynnti Johnson að undir forystu hans yrði fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu ekki frestað frekar en þegar hefur verið gert.

Þegar hefur þungaviktarfólk innan Íhaldsflokksins eins og Philip Hammond fjármálaráðherra og Amber Rudd vinnumálaráðherra gefið til kynna að það gæti stutt Johnson, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, sem forsætisráðherra og leiðtoga.

Fleiri hafa lýst yfir framboði. Þar á meðal Jeremy Hunt utanríkisráðherra, Matt Hancock heilbrigðisráðherra og Esther McVey, fyrrverandi vinnumálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert