Mögulega gallaðir íhlutir í sumum vélanna

Boeing 737 Max-farþegaþotur við verksmiðju Boeing í Renton í Washington-ríki. …
Boeing 737 Max-farþegaþotur við verksmiðju Boeing í Renton í Washington-ríki. Nú segir FAA gallaða íhluti kunna að leynast í sumum vélanna. AFP

Vera kann að einhverjar af þeim Boeing 737 Max-farþegaþotum sem framleiddar hafa verið séu með gallaða íhluti og þörf sé á að skipta þeim út. Reuters-fréttaveitan segir Flugmálastofnun Bandaríkjanna (FAA) hafa greint frá þessu í dag.

Segir FAA þetta hafa áhrif á allt að 148 stoðbrautir á vængjum vélanna (e. leading edge slat tracks) sem framleiddir voru af undirverktaka Boeing. Er þetta raunar einnig sagt ná til 133 Boeing 737 NG-véla sem séu í notkun um heim allan.

Flugmálastofnunin telur gallann ekki líklegan til að valda því að vélin hrapi, en segir hann geta valdið skemmdum á flugvélinni. Stoðirnar eru hreyfanleg spjöld sem teygjast fram fyrir vænginn þegar vélin tekur á loft og lendir og auka ris hennar. Rákirnar eru hins vegar fastar við vænginn.

Boeing 737 Max 8-farþegaþoturnar voru kyrrsettar um heim allan í kjölfar þess að flugvél þessarar gerðar frá Ethiopian Airlies hrapaði í mars. Sambærilegt slys hafði átt sér stað hjá indónesíska Lion Air-flugfélaginu í október í fyrra. Alls fórust 346 í flugslysunum.

Boeing-flugvélaframleiðandinn hefur frá því skömmu eftir síðara slysið sagt uppfærslu á hugbúnaði fyrir MCAS-stýribúnað vélanna, sem talinn er hafa valdið flugslysunum, verða kynnta á næstunni. Uppfærslan verður hins vegar að hljóta samþykki FAA áður en vélunum verður leyft að fljúga á ný.

Reuters segir Boeing ekki hafa viljað tjá sig um meintan galla í stoðbrautunum. FAA segir Boeing hins vegar hafa borið kennsl á hópa NG-véla og Max-véla sem gölluðu íhlutirnir kunni að vera í. Hlutirnir sem um ræðir „kunna að bila snemma eða brotna vegna framleiðslugalla,“ hefur Reuters eftir FAA.

Mun flugmálastofnunin gefa út leiðbeiningar um flughæfi sem mun skylda Boeing til að bera kennsl á og láta fjarlægja þessa hluti innan tíu daga.

Talsmaður FAA telur þetta þó ekki munu tefja hugbúnaðaruppfærslu Boeing eða gerð þjálfunarleiðbeininga. Ekki liggur þó enn fyrir hvenær þær munu liggja fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina