Farage ekki til liðs við Le Pen

Nigel Farage, stofnandi Brexit-flokksins.
Nigel Farage, stofnandi Brexit-flokksins. AFP

Þjóðernissinnum og Evrópuandstæðingum, sem gekk ágætlega í Evrópuþingkosningunum sem fram fóru í síðasta mánuði, virðist ætla að mistakast að mynda þá breiðfylkingu sem stefnt var að í aðdraganda kosninganna.

Wall Street Journal greinir frá því að Marine Le Pen, Evrópuþingmaður og formaður frönsku þjóðfylkingarinnar, og Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, hafi á fimmtudag hist í Brussel til að endurnýja heitin en ekki tekist markmiðið að sameina þjóðernissinna og einangrunarsinna álfunnar, enda metnaðarfullt markmið.

Blaðið segir að ágreiningur vegna viðhorfs í garð Rússa, sem og persónuleg óvild milli sumra frammámanna þjóðernispopúlista, hafi orðið til þess að bandalagi Le Pen og Salvini hafi einungis tekist að laða til sín nokkra tugi Evrópuþingmanna. Í stað þess að verða að næststærsta bandalagi Evrópuþingsins eins og metnaðarfyllstu markmið kváðu á um fyrir kosningar, er bandalag Le Pen og Salvini, Identity and Democracy (ísl. Sjálfsmynd og lýðræði) þess í stað fimmta stærsta bandalagið á þinginu, vel að baki evrópusinnaðra hreyfinga sem hafa sterkan þingmeirihluta.

Skarð var einnig hoggið í fyrirhugaða hreyfingu er Nigel Farage, formaður Brexit-flokksins, tilkynnti að hreyfing hans myndi ekki ganga til liðs við hreyfinguna heldur mynda eigið bandalag. Til þess þarf hann þó á meðreinarsveinum að halda. Til að stofna flokkabandalag á Evrópuþinginu þarf minnst 25 þingmenn frá sjö aðildarríkjum. Fyrra skilyrðið verður ekki til vandræða, enda fékk Brexit-flokkurinn 29 þingsæti, jafnmörg og Kristilegir demókratar í Þýskalandi og er enginn flokkur stærri frá einu aðildarríki. 

Marco Zanni, oddviti Bandalags Salvini á Evrópuþinginu, og Marine Le …
Marco Zanni, oddviti Bandalags Salvini á Evrópuþinginu, og Marine Le Pen takast í hendur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert