Vonar að Palestína taki þátt

Jared Kushner, ráðgjafi Hvíta hússins, ræddi við blaðamenn þegar tveggja …
Jared Kushner, ráðgjafi Hvíta hússins, ræddi við blaðamenn þegar tveggja daga friðarráðstefnu lauk í Barein í dag. AFP

Jared Kushner, ráðgjafi Hvíta hússins og tengdasonur Donalds Trump bandaríkjaforseta, sagði í dag enn tækifæri fyrir Palestínu að taka þátt í friðaráætlun sem hefur verið í mótun á friðarráðstefnu Bandaríkjanna í Barein í tvo daga.

„Ef þeir raunverulega vilja bæta líf þjóðar sinnar höfum við gert frábæran ramma að áætlun sem þeir geta tekið þátt í svo hægt verði að ná því markmiði,“ sagði Kushner við blaðamenn undir lok ráðstefnunnar í Barein, en palestínskt stjórnvöld hafa sniðgengið hana.

„Við munum áfram vera bjartsýn,“ sagði ráðgjafinn og bætti við að „dyrnar eru alltaf opnar.“

Palestínsk yfirvöld halda því fram að 50 milljarða bandaríkjadala áætlun Kushners sé undirbúningur að því að ríkisstjórn Trumps, sem þeir saka um hlutdrægni Ísrael í hag, geta þvingað í gegn sína pólitísku lausn.

Kushner sagði ríkistjórn Bandaríkjanna hyggjast kynna hina stjórnmálalegu friðaráætlun á „réttum tíma“ og að það væri ekki sömu einstaklingarnir sem væru að gera drög að efnahagsáætluninni og stjórnmálaáætluninni.

Kenna Ísrael um eigin vanda

„Það sem hefur heyrst reglulega á ráðstefnunni er að þessar umbætur eru mögulegar,“ sagði Kushner og vísaði til ráðlegginga um breytingar á efnahagslífi og hagkerfi Palestínu.

„Það sem leiðtogarnir [Palestínu] hafa gert er að kenna Ísrael og alla aðra um þann vanda sem fólkið er að glíma við, þegar staðreyndin er sú að stöðugt heyrist að hægt sé að leysa öll þessi vandamál ef yfirvöld hafa vilja til þess að framkvæma þessar umbætur.“

mbl.is