Tugir látnir eftir sprengingu í Nígeríu

Fulltrúi yfirvalda á svæðinu sem AFP ræddi segir líkur á …
Fulltrúi yfirvalda á svæðinu sem AFP ræddi segir líkur á því að fjöldi þeirra sem fluttir voru slasaðir af vettvangi láti lífið, þar sem áverkar þeirra séu alvarlegir. AFP

Að minnsta kosti 45 manns létust og yfir 100 slösuðust þegar að bensínflutningabíll sprakk í þorpinu Ahumbe í Nígeríu í dag. Flutningabíllinn valt á hliðina og sprakk svo um það bil klukkustund síðar, er þorpsbúar höfðu safnast saman til þess að safna saman bensíni, sem lak úr bílnum.

Samkvæmt frétt AFP um málið kviknaði skyndilega í bensínu sem rann eftir jörðinni, þegar að rúta hlaðin farþegum keyrði framhjá flutningabílnum og neistar skutust undan henni.

Fulltrúi yfirvalda á svæðinu sem AFP ræddi segir líkur á því að fjöldi þeirra sem fluttir voru slasaðir af vettvangi láti lífið, þar sem áverkar þeirra séu alvarlegir.

„Bróðir minn lést og tveir bræður mínir til viðbótar eru alvarlega brenndir á spítala. Þeir voru fastir í logunum þegar að önnur sprenging varð í flutningabílnum,“ segir Ade Derfer, íbúi á svæðinu, í samtali við AFP.

Margir eru með slæm brunasár á spítala.
Margir eru með slæm brunasár á spítala. AFP

Ochuole Imaje, einn farþeganna í rútunni sem ók framhjá og gaf frá sér neistana sem ollu sprengingunni, segir að farþegar hafi beðið bílstjórann um að keyra ekki framhjá slysstaðnum. Hann hélt áfram og reyndi að keyra ekki yfir bensínið, en allt í einu varð sprenging og rútan alelda á skammri stundu.

„Við börðumst fyrir lífi okkar,“ sagði Imaje við AFP.

Slys sem þessi eru ekki eindæmi í Nígeríu, þar sem langflestir íbúa lifa í fátækt þrátt fyrir að ríkið sé ríkt af olíuauðlindum. Eldsvoðar og sprengingar eiga sér oft stað þegar að fólk reynir að verða sér úti um bensíns úr lekandi bensínleiðslum eða eftir slys eins og það sem átti sér stað í Ahumbe í dag.

Síðast í janúar létust átta manns í svipuðu atviki í bænum Odukpani í suðausturhluta landsins og árið 2012 varð stórslys í suðurhluta landsins þar sem yfir hundrað manns létust af svipuðum orsökum.

Bensínflutningabíllinn valt á hliðina og íbúar reyndu að verða sér …
Bensínflutningabíllinn valt á hliðina og íbúar reyndu að verða sér úti um eldsneyti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert