Tvö bresk skip í haldi Írana

Stena Impero er á leið til hafnar í Íran.
Stena Impero er á leið til hafnar í Íran. Ljósmynd/Stena Bulk

Íranski her­inn, bylt­ing­ar­verðirn­ir svo­nefndu, tóku annað breskt ol­íu­skip til viðbótar við Hormuz-sund í dag. Um klukkustund áður hafði herinn tekið skipið Stena Im­pero. Þetta kemur fram á miðlinum Fox News

Skipin sigla í átt til hafn­ar í Íran en þau voru á leið til Sádi-Arabíu. Ekki hefur náðst samband við þá 23 sem eru í áhöfn skipsins. Talsmaður fyrirtækisins Stena Impero, sagði að þyrla og óþekkt skip hefðu nálgast skipið þegar það var á siglingu á alþjóðlegu svæði. 

„Við höfum ekki fengið neina vitneskju um slys á áhöfninni. Öryggi þeirra er það sem við hugsum fyrst og fremst um,“ segir í tilkynningu frá eiganda Stena Impero. 

Samkvæmt tilkynningu frá íranska her­num var skipið tekið á þeim forsendum að „það hafi ekki farið eftir alþjóðlegri siglingarlöggjöf og reglugerðum.“ Skipinu yrði siglt að ónefndri höfn í Íran. Samkvæmt ratsjá eru skipin á leið til hafnar í Qeshm-eyjar í Íran. 

Sam­kvæmt frétt BBC er breska ut­an­ríki­ráðuneytið að vinna í því að kynna sér mála­vexti og þá hef­ur Cobra-nefnd­in, neyðar­nefnd breskra stjórn­valda, verið kölluð sam­an til fund­ar. 

Bresk stjórn­völd kyrr­settu ír­anskt ol­íu­skip við Gíbralt­ar 4. júlí og hafa Íran­ir í kjöl­farið reynt að svara í sömu mynt og kraf­ist þess að skipið, Grace 1, verði leyft að halda þaðan.

mbl.is