Vistaður í innflytjendabúðum fyrir mistök

Galicia sjálfur lætur illa af dvölinni í innflytjendabúðunum og segist …
Galicia sjálfur lætur illa af dvölinni í innflytjendabúðunum og segist til að mynda aldrei hafa fengið að fara í sturtu. Innflytjendabúðir í Los Angeles. Mynd úr safni. AFP

Bandarískur karlmaður hefur verið látinn laus úr bandarískum innflytjendabúðum eftir að hafa verið þar í haldi í þrjár vikur. Hann segir aðstæðurnar þar hafa verið svo ömurlegar að hann hafi hugleitt að biðja um að vera sendur úr landi. BBC greinir frá.

Francisco Erwin Galicia er 18 ára bandarískur ríkisborgari. Hann var í haldi í innflytjendabúðum í suðurhluta Texas í 23 daga og léttist um 12 kg á meðan á dvölinni þar stóð.

Bandarísk alríkisyfirvöld hafa undanfarið staðið fyrir herferð til að hafa uppi af óskráðum innflytjendum sem ekki eru með dvalarleyfi í landinu. Þau eiga þó ekki að handtaka bandaríska ríkisborgara en svo virðist sem þau hafi ekki tekið skilríki Galicias trúanleg.Lét senda sig úr landi til að fá að hringja

Það var svo degi eftir að dagblaðið Dallas Morning News fjallaði um handtöku hans að Galicia var látinn laus.

Galicia var með 17 ára bróður sínum Marlon, sem ekki er bandarískur ríkisborgari, á ferð í nágrenni landamæraeftirlitsstöðvar, er þeir voru handteknir. Marlon og fleiri farþegar í bílnum sem ekki voru með dvalarleyfi voru handteknir.

Galicia sagði landamæravörðunum að hann væri bandarískur ríkisborgari og sýndi þeim skilríki sín og fæðingavottorð að sögn Dallas Morning News. „Ég sagði þeim að við hefðum réttindi og bað um að fá að hringja. Þeir sögðu þá við okkur: Þið eigið ekki rétt á neinu,“ rifjar Galicia upp.

Tveimur dögum eftir að þeir voru handteknir samþykkti Marlon að láta senda sig til  mexíkóska landamærabæjarins Reynosa, svo hann gæti komist látið móður þeirra vita hvar þeir væru.

Bandaríska landamæraeftirlitið og Útlendingastofnun sendu í gær frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau vörðu þá ákvörðun sína að halda Galicia áfram í haldi. Sögðu þau oft taka langan tíma að staðfesta gögn.

Komst aldrei í sturtu og svaf á gólfinu

Galicia sjálfur lætur illa af dvölinni í innflytjendabúðunum og segist til að mynda aldrei hafa fengið að fara í sturtu. Hann var vistaður í klefa með 60 öðrum karlmönnum, sem voru látnir sofa á gólfinu með álteppi eitt sér til hlífðar. Sumir þurftu þá að sofa á gólfinu við klósettin.

„Þetta var ómannúðleg meðferð á okkur. Ég var kominn á þann stað að ég var tilbúinn að skrifa undir að láta flytja mig úr landi bara til að þjást ekki þarna lengur,“ segir hann. „Ég þurfti bara að komast í burtu.“

Mál Galicia er þó ekkert einsdæmi en dagblaðið Los Angeles Times greindi frá því í fyrra að 1.480 hafi verið látnir lausir úr innflytjendabúðum að lokinni rannsókn á ríkisborgararétti þeirra. Í einu slíku máli var Bandaríkjamaður, sem á ættir að rekja til Jamaica, látinn laus eftir þriggja ára vistun í slíkum búðum.

mbl.is