Reyndu að koma höggi á Biden

Joe Biden og Kamala Harris í kappræðunum í gær. Biden …
Joe Biden og Kamala Harris í kappræðunum í gær. Biden þótti standa sig betur en í Miami í síðasta mánuði, er hann átti í vök að verjast. AFP

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, var miðpunktur athyglinnar er önnur umferð kappræðna 10 forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins fór fram í gær. Guardian segir keppinauta varaforsetans fyrrverandi hafa skipst á að reyna að koma höggi á Biden, sem hefur haft forystu í kapphlaupinu um tilnefningu flokksins.

Ólíkt því sem gerðist í Miami í síðasta mánuði, er hann átti í vök að verjast, var Biden að þessu sinni tilbúinn í slaginn.  

Meðal þeirra sem tóku þátt í kappræðunum, sem sýndar voru í beinni á CNN, voru Kamala Harris, sem kom fjölda högga á Biden í Miami, Cory Booker sem Biden hefur lent saman við vegna réttarkerfisins, Kirsten Gillibrand, Michael Bennet, Julian Castro og Tulsi Gabbard.

Líkt og í Miami beindist athyglin í fyrstu að heilbrigðismálum og leitaðist Harris við að verja heilbrigðisstefnu sem hún kynnti fyrr í vikunni.

Að sögn Guardian voru kappræðurnar nú vanstilltari en þær síðustu og þróuðust oft yfir í mjög persónulegar deilur um málefni á borð við innflytjendur, loftslagsbreytingar og samskipti ólíkra kynþátta. Var fortíð Bidens í pólitík ítrekrað dregin fram í kastljósið og náði hann að mestu að verjast.

Segir Guardian að kappræðurnar nú hafi að mörgu leyti verið prófsteinn á það mál sem hvíli hvað þyngst á Demókrataflokknum þessa stundina — hvort kosningabaráttan eigi að vera yfirgripsmikil umbótaherferð, eða hvort hún eigi að beinast að því máli einu að koma í veg fyrir að Trump sitji annað kjörtímabil á forsetastóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert