Scaramucci hættur að styðja Trump

Anthony Scaramucci, fyrrverandi samskiptastjóri Hvíta hússins, vill ekki sjá Trump …
Anthony Scaramucci, fyrrverandi samskiptastjóri Hvíta hússins, vill ekki sjá Trump endurkjörinn. AFP

Anthony Scaramucci, fyrrverandi samskiptastjóri Hvíta hússins, sem hefur ítrekað stutt Trump í fjölmiðlum, segist nú ekki lengur styðja endurkjör hans. Segist Scaramucci í samtali við CNN nú vera þeirrar skoðunar að Repúblikanaflokkurinn þurfi að skipta um mann í brúnni fyrir forsetakosningarnar 2020.

Scaramucci hefur undanfarið gagnrýnt forsetann í sívaxandi mæli fyrir hatursorðræðu í garð innflytjenda, sem og heimsóknir Trumps til Dayton í Ohio og El Paso í Texas í kjölfar mannskæðra skotárása þar nýlega.

Er Scaramucci var spurður í þættinum New Day á CNN hvort hann væri ekki lengur virkur stuðningsmaður Trumps og endurkjörs hans svaraði hann: „Ég myndi telja það nokkuð augljóst vegna viðburða helgarinnar.“ Hafa þeir Trump skipst á skotum í garð hvors annars undanfarna daga.

„Gaurinn er raunverulega að fara svolítið á límingunum og hann hljómar sífellt ruglingslegri. Og veistu, við erum eiginlega orðin ónæm fyrir því,“ sagði Scaramucci.

Trump virtisti reiður í garð Scaramucci um helgina, eftir að hann kallaði heimsóknir forsetans til El Paso og Dayton „stórslys“.

Spurður hvort hann væri að kalla eftir nýjum forsetaframbjóðanda fyrir Repúblikanaflokkinn svaraði hann að hann vildi að það væri tekið til skoðunar.

„Ég held að maður verði að hugleiða að gera breytingu á toppnum þegar einhver hegðar sér svona,“ sagði Scaramucci. Hann kvaðst þó telja stefnumál Trumps vera „mjög, mjög góð fyrir bandarískan almenning“. Orðræða forsetans væri hins vegar svo gildishlaðin og sundrandi að það væri nauðsynlegt að stíga eitt skref til baka og spyrja sig hvað væri eiginlega verið að gera.

„Hann leggur til atlögu á Twitter-síðu sinni sem forseti Bandaríkjanna gegn einstaklingum og kyndir undir hatri sem aftur veldur líflátshótunum,“ sagði Scaramucci. Slík orðræða frá forsetanum kæmi Bandaríkjunum ekki til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert