Vildu koma í veg fyrir hrun kirkjunnar

Notre-Dame eftir eldsvoðann.
Notre-Dame eftir eldsvoðann. AFP

Franska menningarmálaráðuneytið heldur því fram að þörfin á að gera dómkirkjuna Notre-Dame örugga á ný hafi hægt á uppbyggingu kirkjunnar og hreinsunarstörfum umhverfis hana. Hefur ráðuneytið verið gagnrýnt fyrir að hundsa auknar líkur á blýeitrun hjá íbúum á svæðinu. 

Vinnu til að tryggja að kirkjan verði örugg á ný var frestað í lok júlí svo að afmenga megi blýið sem dreifðist í eldsvoðanum í vor. Vinna við kirkjuna ætti að hefjast að nýju í næstu viku. 

Ráðuneytið segir að að öll vinna við kirkjuna í kjölfar eldvoðans hafi verið til þess að koma í veg fyrir að kirkjan hrynji og að enn hafi ekki verið unnið að endurreisn kirkjunnar frægu. 

„Nýlega féllu steinar úr hvelfingunni vegna hitabylgjunnar. Það er einungis nauðsyn þess í tengslum við varanlega hætta á hruni sem réttlætir taktinn í þeirri vinnu sem farið hefur fram,“ segir ráðuneytið. 

Heilsa vinnufólks í forgangi 

Franski rannsóknarmiðillinn Mediapart birti nýlega skýrslu þar sem ráðuneytið var sakað um að hundsa ítrekað viðvaranir eftirlitsmanna um hættur sem stafi af blýinu þar til að vinnu við uppbyggingu kirkjunnar var frestað 25. júlí. 

Ráðuneytið gefur ekki mikið fyrir ásakanir Mediapart. 

„Allir opinberir þjónustuaðilar á vettvangi hafa gert heilsu vinnufólks að algjöru forgangsefni, umfram allt annað.“

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur sett það metnaðarfulla markmið að endurreisn kirkjunnar verði lokið innan fimm ára. Menningarmálaráðuneytið segir þó að vinna að endurreisn muni ekki hefjast fyrr en á næsta ári. 

„Endurreisnarstarfið mun ekki hefjast fyrr en í fyrsta lagi á fyrri hluta 2020,“ sagði ráðuneytið. 

Hundruð tonna af blýi í þaki og turni kirkjunnar bráðnuðu í eldsvoðanum 15 apríl. Blýmengun í andrúmslofti á svæðinu umhverfis kirkjuna hefur næstum þvi tífaldast. Blý­meng­un get­ur valdið tauga- og tauga­kerf­is­rösk­un­um í fólki, sér­stak­lega börn­um, og nýrna­vanda­mál­um.

Unnið að afmengun í nágrenni kirkjunnar.
Unnið að afmengun í nágrenni kirkjunnar. AFP
mbl.is