Vonir og þrár að engu orðnar

Tæplega eitt þúsund gestir fagna brúðkaupi ungs pars en augnabliki síðar eru 63 látnir og tæplega 200 særðir. Brúðkaup Mirwais Alami og Raihana var ákveðið með fremur skömmum fyrirvara og á boðskortinu stóð: „Við fögnum í heimi vonar og þrár.“ Vonir og þrár að engu orðnar.

Líkt og hefðbundið er í brúðkaupum í Afganistan var veislan tvískipt, karlar öðrum megin við þilið og konur hinum megin. Karlarnir voru dansandi við undirleik hljómsveitar þegar árásarmaðurinn kemur inn og augnabliki síðar breytist brúðkaup í vígvöll. 

Á sama tíma er reynt að ná samkomulagi við talibana um brotthvarf Bandaríkjamanna frá Afganistan eftir 18 ára veru í landinu. Ríki íslams hefur lýst ábyrgð á árásinni og upplýst hver vígamaðurinn var. Um sjálfsvígsárás var að ræða. 

Árásir á brúðkaup, þar sem sameiningu er fagnað, hafa verið fremur fátíðar í Afganistan en á laugardaginn var gestum sem fögnuðu ástinni með unga parinu fórnað á altari vígasamtakanna. „Ég væri betur kominn dáinn,“ sagði brúguminn í viðtali við afganska sjónvarpsstöð, að því er segir í umfjöllun New York Times. „Ég treysti mér ekki í útfarirnar, fæturnir bera mig ekki,“ bætti Alami við. 

AFP

Stjórnarformaður mannréttindaráðs Afganistan, Shaharzad Akbar, segir á Twitter að stríðið hafi breytt landinu í sláturhús þar sem enginn er öruggur. Landi þar sem enginn nýtur lífsins heldur berjist allir við að halda lífi. „Hvernig og hvenær mun þessi menning sem einkennist af morðum og ofbeldi breytast?“ spyr hún. 

Alamai er 25 ára gamall klæðskeri og brúður hans, Raihana, er 18 ára gömul. Hún útskrifaðist nýverið úr menntaskóla. Þau trúlofuðu sig fyrir sjö mánuðum og kostnaðurinn við brúðkaupið nemur 14 þúsund Bandaríkjadölum. Peningum sem Alami hafði nurlað saman og eins fengið að láni. 

Flýttu brúðkaupinu vegna ófriðar

Brúðkaupið átti ekki að fara fram strax og þegar þau trúlofuðust stóð til að brúðkaupið yrði haldið að tveimur árum liðnum. En fyrir þremur mánuðum bað Alami foreldra Raihana um að því yrði flýtt vegna óstöðugleikans í landinu. Enginn viti hvað bíði landsmanna þegar 14 þúsund bandarískir hermenn yfirgefa landið. 

Makai Hazrati, móðir brúðarinnar, segir að hún hafi beðið parið um að bíða með brúðkaupið, að minnsta kosti fram yfir aldarafmæli sjálfstæðis Afganistans sem er í dag. Taldi hún það vera öruggara en unga parið var ekki sammála því þau vildu ganga í hjónaband sem fyrst. 

„Ég vildi skipuleggja litla veislu fyrir fjölskyldurnar tvær hér á heimilinu en Raihana vildi stóra brúðkaupsveislu í sal,“ segir Hazrati í samtali við NYT. 

Veislusalurinn er vestur af Kabúl og þótti einn sá flottasti í borginni en hann tók þúsund manns í sæti. Brúðguminn lagði til allan mat í veisluna og var boðið upp á kjúkling á teini ásamt hrísgrjónum og grænmeti. 

Þegar árásarmaðurinn, Pakistaninn Abu Asim, kom inn í þann hluta veislunnar sem var ætlaður körlum höfðu brúðhjónin þegar skipt einu sinni um klæðnað. Kvennamegin var maturinn kominn á borðin og þær voru að setjast að snæðingi þegar mikill hvellur heyrðist. Brúðurin hefur ekki sagt orð frá því sprengjubelti árásarmannsins sprakk. Hún getur ekki mælt, ekkert frekar en margir aðrir sem eiga um sárt að binda. Brúðguminn var ekki sjálfur í salnum því hann var að búa sig undir frekari veisluhöld. Fögnuð sem breyttist í sorg á andartaki. Líf þeirra verður aldrei samt. Bróðir brúðgumans er meðal þeirra sem létust og fjölmargar konur og börn eru meðal þeirra sem særðust. 

Frétt New York Times

Frétt BBC

Frétt FOX

Frétt CBS

AFP
mbl.is