Óttast tölvuárás í forsetakosningunum

Undanfarin tvö ár hafa tölvuþrjótar sem bæði starfa á eigin …
Undanfarin tvö ár hafa tölvuþrjótar sem bæði starfa á eigin vegum og fyrir þjóðríki notað gagnagíslatökuforrit til að kúga fórnarlömb sín og valda mikilli óreiðu. AFP

Bandarísk stjórnvöld ætla að koma upp forriti sem hefur þann tilgang einan að verja gagnagrunna yfir kjörskrár og kosningakerfi fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Reuters-fréttaveitan greinir frá þessu og segir bandarísk yfirvöld óttast tölvuárás í kosningunum.

Gert er ráð fyrir að kerfið, sem er í þróun, verði komið í gagnið eftir um mánuð. Þau kerfi sem nú eru notuð voru rofin í kosningunum 2016 af rússneskum tölvuþrjótum í upplýsingaleit. Hafa leyniþjónustustarfsmenn nú áhyggjur af að tölvuþrjótar muni ekki eingöngu gera gagnagrunnana að skotspóni sínum í kosningunum 2020, heldur að þeir muni einnig reyna að ráðskast með upplýsingar, trufla eða eyðileggja gögn, að því er Reuters hefur eftir bæði núverandi og fyrrverandi starfsmönnum stofnananna.

„Við teljum áhættuna gegn þessum kerfum vera verulega,“ sagði háttsettur embættismaður.

Frá kjörstað í Kaliforníu. Mynd úr safni.
Frá kjörstað í Kaliforníu. Mynd úr safni. AFP

Óttast gagnagíslatökuforrit 

Tölvuöryggisdeild heimavarnarráðuneytisins (CISA) er sögð óttast að gagnagíslatökuforriti kunni að verða beitt gegn gagnagrunnunum, en slíkir vírusar hafa lamað tölvukerfi borga í Bandaríkjunum undanfarið, m.a. í Baltimore og Atlanta.

„Nýleg dæmi sýna að ríki og alríkisstjórnvöld og þeir sem styðja þau eru skotmörk gagnagíslatökuárása,“ sagði Christopher Krebs, forstjóri CISA. „Þess vegna vinnum við með kjörstjórnum og samstarfsaðilum þeirra í einkageiranum til að aðstoða þá við að verja gagnagrunna sína og bregðast við mögulegum árásum.“

Reuters segir aðgerðirnar gegn tölvuárásunum vera unnar samhliða öðrum aðgerðum leyniþjónustustofnana sem ætlað er að áætla hvaða þættir séu líklegastir til að verða fyrir árás.

Frá kjörstað í Fíladelfíu. Mynd úr safni.
Frá kjörstað í Fíladelfíu. Mynd úr safni. AFP

Ekki leiðbeiningar um lausnargjaldið

„Það er mikilvægt að ríkis- og borgaryfirvöld takmarki aðgengi upplýsinga um kosningakerfið og ferlið og tryggi þau vefsvæði og gagnagrunna sem kynnu að verða arðrændir,“ sagði í yfirlýsingu frá bandarísku alríkislögreglunni FBI.

Meðal þess sem CISA mun gera er að undirbúa kjörstjórnir og starfsmenn þeirra fyrir slíkar gíslatökur m.a. með fræðsluefni og prófunum á tölvum þar sem leitað er að veikleikum. Eins verður frætt um hvernig megi koma í veg fyrir gagnagíslatöku. Engar leiðbeiningar eru hins vegar um það hvort ríki eigi að greiða lausnargjald komi sú staða upp. „Okkar hugsun er að við viljum ekki að ríki lendi í þeirri stöðu,“ segir starfsmaður heimavarnarráðuneytisins. „Okkar áhersla er á að koma í veg fyrir að það gerist.“

Undanfarin tvö ár hafa tölvuþrjótar sem bæði starfa á eigin vegum og fyrir þjóðríki notað gagnagíslatökuforrit til að kúga fórnarlömb sín og valda mikilli óreiðu.  

„Árás í aðdraganda kosninga sem ekki væri tekið eftir gæti falið í sér breytingar á kjörskrám sem svo gæti valdið miklum ruglingi, töfum og útilokun sem með nægilegu umfangi gæti valdið því að kosningarnar teldust ógildar,“ segir John Sebes, yfirmaður tæknimála hjá kjörtæknihugveitunni ESET.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert