Fundu tvíhöfða höggorm

Höggormur. Mynd úr safni.
Höggormur. Mynd úr safni. Ljósmynd/Wikipedia.org

Höggormsungi í New Jersey fæddist með tvö fullmótuð höfuð sem eru óháð hvort öðru. Guardian greinir frá þessu og segir vísindamenn hafa gefið snáknum nafnið Double Dave, sem útleggja mætti sem Dabbi tvöfaldi.

Það voru umhverfisverndarsinnar frá samtökunum Herpetological Associates sem fundu snákinn úti í skógi er þeir voru þar að rannsaka skriðdýr í útrýmingarhættu.

Nafn snáksins má svo rekja til þess að tveir þeirra sem hann fundu heita Dave.

Höggormurinn er 20-25 cm langur og eru bæði höfuð hans fullvirk og er hann því með fjögur sjáandi augu og tvær tungur.

Dave Schneider, einn þeirra sem fundu hann, segir erfitt fyrir svo óvenjulegan snák að lifa af í náttúrunni þar sem hann sé ekki jafnfljótur í förum og aðrir snákar og því auðveld bráð.

Höfuðin tvö hafa þá átt það til að berjast um sömu fæðuna og virðast ekki átta sig á að fæðan endar í sama meltingarkerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert