Boris neitar að hafa logið að drottningu

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Elizabeth II Bretadrottning í Buckinghamhöll.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Elizabeth II Bretadrottning í Buckinghamhöll. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, neitar að hann hafi logið að Elísabetu Bretadrottningu varðandi þau ráð sem hann gaf henni vegna fimm vikna þinghlés sem hann boðaði til. 

Æðsti dóm­stóll Skot­lands komst að þeirri niður­stöðu í gær að ákvörðun John­sons um að slíta þingi hefði verið ólög­mæt. Í úr­sk­urði dóms­ins segja dóm­ar­ar ein­um rómi að ákvörðun John­sons um að senda þingið heim sé í þeim „ósæmi­lega til­gangi að lama þingið“.

Johnson segist hins vegar ekki hafa logið að drottningu varðandi ástæður þess að hann vildi gera hlé á þingstörfum. „Enski dómstóllinn er augljóslega sammála okkur en hæstiréttur verður að úrskurða um málið,“ hefur BBC eftir Johnson.

Valdið til að boða þinghlé liggur hjá Bretadrottningu, sem hefð er fyrir að fylgi ráðgjöf forsætisráðherra landsins í þeim efnum.

Breska þingið fór á þriðjudag í fimm vikna hlé og mun ekki koma saman á ný fyrr en 14. október, en gert er ráð fyrir að Bretland yfirgefi Evrópusambandið 31. október.

Hefur breski Verkamannaflokkurinn sagt meiri þörf á því nú en nokkru sinni fyrr að þing verði kallað saman á ný, en breska stjórnin birti í gær mat á verstu mögulegu útkomu samningslausrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Það var þingheimur sem neyddi stjórnina til að birta matið sem nefnist Yellowhammer, eða Gula sleggja, en þar er varað við skorti á matvælum og eldsneyti náist ekki samningar.

Johnson fullyrðir engu að síður að Bretar verði tilbúnir að yfirgefa ESB 31. október. „Það sem þarna blasir við er bara skynsamlegur undirbúningur á verstu mögulegu útkomu og slíkt er nokkuð sem maður gerir ráð fyrir að allar ríkisstjórnir láti útbúa,“ sagði hann.

„Í raunveruleikanum verðum við svo sannarlega reiðubúin fyrir samningslaust Brexit ef þörf er á, en ég ítreka þó aftur að það er ekki sú staða sem við ætlum okkur að enda í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert