Fagna 80 ára brúðkaupsafmæli

Einungis örfá hjón um heim allan hafa náð þeim áfanga …
Einungis örfá hjón um heim allan hafa náð þeim áfanga að vera gift í 80 ár. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þýsk hjón náðu þeim merka áfanga í dag að geta fagnað 80 ára brúðkaupsafmæli sínu. Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine greinir frá þessu og segir þau Ludwig og Charlotte Piller mögulega vera fyrstu þýsku hjónin sem ná að fagna eikarbrúðkaupi, en svo nefnist 80 ára brúðkaupsafmæli.

Einungis örfá hjón um heim allan hafa líka náð þessum áfanga. Síðari heimsstyrjöldin var tiltölulega nýhafin þegar Piller-hjónin gengu í það heilaga hinn 12. september árið 1939. Charlotte var þá 18 ára og Ludwig 24 ára, því það var ekki fyrr en 12 dögum eftir að Þýskaland réðst inn í Pólland sem faðir Charlotte féllst loks á að hún fengi að giftast hermanninum sem hún hafði hitt tveimur árum áður.

Charlotte rifjar upp fyrir Frankfurter Allgemeine hvernig þau hittust. Faðir hennar, sem var lögreglumaður, hafði farið með fjölskylduna í hefðbundna sunnudagsgöngu. Að þessu sinni stoppuðu þau í lystigarði þar sem var tónlist og dansað. Þau settust við eitt borðanna þar sem tveir hermenn sátu. Annar þeirra bauð henni upp, en hún sagði nei. Hún væri of ung til að dansa. „Það geta allar konur dansað við mig,“ svaraði hann þá. „Og þannig byrjaði það,“ sagði Charlotte.

Stalst til að hitta Charlotte

Þau stálust svo um tíma til að hittast í öftustu röð í kvikmyndahúsi smábæjarins sem hún bjó í, því faðir hennar hefði komist að því um leið ef þau hefðu hist á veitinga- eða kaffihúsi. Þegar Ludwig vildi svo gera samband þeirra opinbert bað hann föður Charlotte leyfis. „Hún er of ung fyrir þig,“ var svarið sem hann fékk. Því svaraði Ludwig til: „Hún eldist með hverjum deginum“. Eftir það var þeim heimilað að fara saman í bíó gegn því skilyrði að hún kæmi beint heim. „Ef myndin var búin klukkan tíu átti Ludwig að vera kominn með mig heim korter yfir tíu,“ segir Charlotte.

Þrátt fyrir að hafa gengið í hjónaband sáu þau lítið hvort af öðru í stríðinu, en Ludwig var þá flugmaður í þýska flughernum. Er söknuðurinn eftir Charlotte varð óbærilegur átti hann þó til að taka á sig aukakrók með flugvélina og stalst til að hitta hana. Eftir loftárás á ensk skip og höfnina í Plymouth árið 1940 flaug hann t.d. ekki beint til baka til Orly heldur hélt áfram til Allgäu þar sem hún bjó með skó sem hann hafði keypt fyrir hana. Þau fögnuðu endurfundunum með vínarsnitseli og svo steinsofnaði Ludwig sem var örmagna af þreytu. Þegar hann kvaddi hana sagði hann jafnan: „Ég kem aftur, stúlka!“ og Charlotte segist hafa trúað honum. „Ég trúði því ekki eina einustu sekúndu að hann myndi falla,“ segir hún þótt oft hafi liðið margir mánuðir án þess að hún fengi fréttir af honum.

Eftir stríðið tók við hefðbundið fjölskyldulíf. Ludwig var of gamall til að fá vinnu sem flugmaður hjá Lufthansa og gerðist sölumaður. Þau Charlotte eignuðust þrjú börn, tvo drengi og stúlku sem dó aðeins nokkurra vikna gömul, og eiga fimm barnabörn.

Þrátt fyrir háan aldur sjá þau að mestu enn um sig sjálf en fá þó aðstoð frá hjúkrunarfræðingi sem kemur í daglegar húsvitjanir. Sjónin er líka orðin slæm hjá Ludwig og hnén eru farin að gefa sig. Charlotte hafði síðan betur í baráttunni við ristilkrabba, eftir að aðgerð sem gerð var á henni stuttu fyrir 98 ára afmælisdaginn hennar í júní lukkaðist vel.

Ekki virðast vera mikil áform um veisluhöld hjá Piller-hjónunum í tilefni dagsins, en strax í næstu viku verður enn einum áfanganum náð er Ludwig verður 105 ára hinn 17. september.

mbl.is