Hótaði að nota riffilinn á forsetaframbjóðanda

Robert Francis „Beto“ O'Rourke hafði engan húmor fyrir færslu þingmanns …
Robert Francis „Beto“ O'Rourke hafði engan húmor fyrir færslu þingmanns Texas-ríkis Briscoe Cain. AFP

Þingmaður Repúblikaflokksins í Texas-ríki virðist hafa hótað forsetaframbjóðandanum Beto O‘Rourke lífláti á samfélagsmiðlinum Twitter í kvöld eftir að O’Rourke lofaði að banna og gera AR-15 árásarriffla upptæka verði hann kjörinn forseti.

AFP, The Guardian og fleiri fjölmiðlar greina frá.

„AR riffillinn minn er tilbúinn fyrir þig Robert Francis,“ tísti þingmaðurinn Briscoe Cain sem svar við tísti O’Rourke sem sagðist ætla að taka AR-15 rifflana af fólki. Beto O’Rourke heitir fullu nafni Robert Francis O’Rourke.

Samfélags- og fréttamiðlar loguðu stafna á milli eftir færslu Cain sem þótti ekki bara ósmekkleg heldur hreinlega alvarlegt brot á lögum. Cain lét alla gagnrýni á færsluna sem vind um eyru þjóta og svaraði henni meðal annars með því að kalla gagnrýnendur „hálfvita“. Færslan var síðar fjarlægð þar sem hún var talin brjóta gegn reglum samfélagsmiðilsins um hótanir.

Cain lét þó ekki þar við sitja heldur kallaði O'Rourke barnalegan fyrir að kvarta undir færslunni.

O’Rourke hefur verið mjög gagnrýninn á núverandi skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum og hefur ekki farið leynt með löngun sína til að herða hana.

Forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins tóku þátt í kappræðum í kvöld og þar var O’Rourke spurður að því hvort hann vildi banna árásarriffla af þessari gerð. Slíkur riffill var notaður í skotárás í El Paso í Texas-ríki í byrjun ágúst þar sem 22 létu lífið.

„Ég er fylgjandi því. Þetta er vopn sem var hannað til að drepa fólk á vígvelli,“ sagði hann og bætti við:

„Þegar við sjáum þessi vopn vera notuð gegn börnum... fjandinn hafi það, já við ætlum að taka AR-15 rifflana og AK-47 rifflana af ykkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert