Hagibis kostaði að minnsta kosti 18 mannslíf

Um 27.000 hermenn hafa verið kallaðir út til þess að …
Um 27.000 hermenn hafa verið kallaðir út til þess að takast á við afleiðingar fellibylsins og heitir Shinzo Abe forsætisráðherra því að ríkisstjórnin muni gera allt sem í hennar valdi standi til þess að hjálpa fólki. AFP

Að minnsta kosti átján manns eru látin og níu er saknað eftir að fellibylurinn Hagibis fór yfir Japan með hvössum vindi og fordæmalausri úrhellisrigningu. Nú standa yfir björgunaraðgerðir, þar sem reynt er að ná til fólks sem er innikróað vegna mikilla flóða, en ár hafa víða flætt yfir bakka sína.

Kraftur Hagibis hefur minnkað verulega og er stormurinn nú kominn frá landi, en fellibylurinn gekk á land á stærstu eyju landsins, Honshu, um kl. 19 í gærkvöldi að staðartíma með vindhviðum sem náðu allt að 60 m/sek.

27.000 hermenn hafa verið kallaðir út til þess að takast á við afleiðingarnar. Í borginni Nagano er ástandið sérlega slæmt, en þar brast flóðgarður með þeim afleiðingum að vatn úr Chikuma-ánni flæddi inn í íbúðahverfi og eru hús umflotin allt upp á aðra hæð.

Þyrlur hafa í dag verið notaðar til þess að ná til fólks í húsum sínum þar í borg. Í Kawagoe, norðvestur af höfuðborginni Tókíó, hafa björgunarmenn á bátum unnið að því að flytja eldri borgara af hjúkrunarheimili sem er á kafi í vatni.

Björgunarmenn flytja eldri borgara af umflotnu hjúkrunarheimili í Kawagoe í …
Björgunarmenn flytja eldri borgara af umflotnu hjúkrunarheimili í Kawagoe í dag. AFP

Flóð og skriður hafa kostað flest mannslíf, en fólk hefur fundist látið í húsum sínum og ökutækjum. Óttast er að töluvert fleiri hafi látið lífið en vitað er á þessari stundu.

Shinzo Abe forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin muni gera allt sem hún getur til þess að hjálpa fólki að takast á við afleiðingarnar af fellibylnum. Yfir 160.000 heimili voru enn án rafmagns síðdegis á sunnudag og ljóst er að eignatjón er mikið.

Ár hafa víða flætt yfir bakka sína. Frá Nagano í …
Ár hafa víða flætt yfir bakka sína. Frá Nagano í dag, þar sem Chikuma-áin hefur rofið flóðgarða. AFP

Hajime Tokuda, bankamaður sem býr í Kawasaki nærri Tókíó, segir við AFP-fréttastofuna að húsið hans hafi farið algjörlega á kaf og vatnshæðin þar innandyra hafi verið hærri en hann sjálfur.

Hann flúði heimili sitt og fór til foreldra sinna í grenndinni, en þar flæddi einnig inn og var fjölskyldunni að endingu bjargað af björgunarsveitarmönnum á bátum.

Börn hjálpa til við að ryðja leðju af götum í …
Börn hjálpa til við að ryðja leðju af götum í Kawasaki. AFP
Maður með hund í Kawasaki.
Maður með hund í Kawasaki. AFP
Bíll marar í hálfu kafi í Higashi-matsuyama.
Bíll marar í hálfu kafi í Higashi-matsuyama. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert