Lögreglumaður skaut konu í gegnum svefnherbergisglugga

Atatina Jefferson lést eftir að hafa verið skotin af lögreglumanni …
Atatina Jefferson lést eftir að hafa verið skotin af lögreglumanni í gegnum svefnherbergisglugga sinn. Ljósmynd/Facebook

Bandarískur lögreglumaður skaut svarta konu á þrítugsaldri til bana í gegnum svefnherbergisglugga hennar í Fort Worth í Texas-ríki í Bandaríkjunum í gærmorgun eftir að hafa verið kallaður á vettvang til að athuga með heilsu konunnar.

BBC greinir frá.

Konan, Ataitan Jefferson, var 28 ára gömul og bjó með átta ára frænda sínum. Nágranni hringdi í lögregluna og bað hana um að athuga hvort ekki væri allt með felldu á heimilinu vegna þess að útidyrahurðin var opin að kvöldi til.

Skotin nánast fyrirvaralaust

Tveir lögreglumenn sinntu útkallinu og fóru inn í garð hússin bakdyramegin. Er þeir nálguðust svefnherbergisgluggann skipar annar lögreglumaðurinn konunni skyndilega að sýna sér hendurnar áður en hann skýtur að því er virðist einu sinni í gegnum gluggann. Þegar sjúkraflutningamenn mættu á vettvang var Jefferson látin.

Lögregluyfirvöld í Fort Worth hafa birt myndskeið úr búkmyndavél lögreglumannsins sem sýnir atvikið og hefur valdið óhug meðal margra. Lögreglumaðurinn segist hafa upplifað ógn eða hótun í sinn garð og því hafi hann verið í rétti. Hann er í leyfi frá störfum meðan rannsókn málsins fer fram.

Kynntu sig ekki sem lögreglumenn

Á myndskeiðinu, sem hefur verið átt við, sést ekki að lögreglumennirnir kynni sig sem slíka. Þá sjást aðstæður innandyra ekki á myndskeiðinu en lögregla hefur birt tvö skjáskot úr myndskeiðinu sem á að sýna skotvopn sem var innandyra. Það er óljóst hvort að Jefferson hélt á vopninu eða ekki en í Texas er löglegt að eiga skotvopn.

„Engin ástæða til að myrða hana“

Lögmaður fjölskyldu konunnar segir að hún hafi verið að spila tölvuleiki við frænda sinn þegar hún fór að kanna læti fyrir utan húsið. „Móðir hennar veiktist nýlega alvarlega og var hún þess vegna að passa húsið í fjarveru hennar. Hún naut lífsins og það var engin ástæða til að myrða hana. Við verðum að fá réttlæti,“ sagði lögmaðurinn Lee Merritt.

Beto O‘Rourke forsetaframbjóðandi demókrataflokksins hefur tjáð sig um harmleikinn og sagði að það þyrfti að krefjast réttlætis. Nágranninn sem hringdi á lögregluna var miður sín yfir atvikinu.

„Ég skelf. Ég er reiður. Ég er í uppnámi og mér finnst sökin að hluta til mín. Ef ég hefði ekki hringt í lögregluna væri hún enn á lífi,“ sagði nágranninn í samtali við fjölmiðla ytra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert