Ók sjúkrabíl á vegfarendur í Ósló

Norska lögreglan.
Norska lögreglan. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Mikill viðbúnaður er nú hjá lögreglunni í Torshov-hverfinu í Ósló í Noregi eftir að vopnaður karlmaður stal sjúkrabíl í borginni í morgun og ók honum á ofsahraða á fjölda fólks.

Meðal þeirra sem maðurinn ók yfir var barn í barnavagni. Samkvæmt frétt NRK, norska ríkisútvarpsins, skaut lögregla á dekk sjúkrabílsins til að stöðva hann og skiptust lögregla og hann á skotum í kjölfarið. Um hálftólfleytið tilkynnti lögregla svo á Twitter-síðu sinni að maðurinn hefði náðst.

Ekki liggur fyrir á hversu marga maðurinn ók, en samkvæmt frétt NRK eru nú  barnið í barnavagninum, kona sem ók barnavagninum og eldri hjón á sjúkrahúsi eftir að hafa orðið fyrir sjúkrabílnum. Stórt svæði hefur nú verið lokað af og þar er lögregla að störfum.

Lögreglumaðurinn Tor Grøttum, sem stjórnar aðgerðum á vettvangi, sagði í samtali við NRK að konu væri einnig leitað í tengslum við málið.

Twitter-færsla Óslóarlögreglunnar eftir að maðurinn var tekinn höndum:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert