Með 26 krónur á tímann

Norðmenn reisa sér nýtt og glæsilegt þjóðlistasafn, alls 2.400 fermetra …
Norðmenn reisa sér nýtt og glæsilegt þjóðlistasafn, alls 2.400 fermetra byggingu með 90 sýningarsölum við Aker-bryggju í hjarta hinnar þúsund ára gömlu höfuðborgar Noregs. Ekkert er til sparað nema kannski laun verkamanna alþjóðlega starfsmannaleigurisans Caverion Group sem uppskera allt niður í 26 norskar krónur á tímann, upphæð sem hrekkur ekki fyrir hálfum lítra af gosdrykk úti í búð í Ósló. Ljósmynd/Annar Bjørgli/Norska þjóðlistasafnið

„Þessar niðurstöður eru grafalvarlegar. Við pöntuðum þessa skýrslu eftir að hafa gert stikkprufur og sjáum ekki betur en að vandamál séu með hvort tveggja réttar launagreiðslur og umfang vinnuframlags.“

Þetta segir Hege Njaa Aschim, upplýsingafulltrúi norsku byggingaeftirlitsstofnunarinnar Statsbygg, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og vísar til biksvartrar skýrslu endurskoðunarrisans KPMG um kröpp kjör byggingarverkamanna við glænýja byggingu norska þjóðlistasafnsins í Ósló sem skartar verðmiða upp á 5,3 milljarða norskra króna, rúmlega 72 milljarða íslenskra.

Sé rýnt í skýrslu endurskoðendanna sannast hið góðkunna vísuorð Davíðs frá Fagraskógi heldur betur, að fáir njóti eldanna sem fyrstir kveiki þá. Byggingarverkamennirnir frá Litháen virðast að minnsta kosti ekki einu sinni fá að sitja í bjarma þeirra elda. 

Tímakaupið hrekkur ekki fyrir gosflösku

Sá sem lægst hefur launin samkvæmt skýrslu KPMG uppsker 26 norskar krónur á tímann. Sú upphæð reiknast til 356 íslenskra króna, í Ósló er algengt verð gosdrykkjar í hálfs lítra umbúðum 34 norskar krónur, sá verkamaður frá Eystrasaltinu sem minnst ber úr býtum gæti með öðrum orðum ekki leyft sér að svala sér á hálfum lítra af Fanta fyrir tímakaup sitt í einu auðugasta ríki heims, olíuríkinu Noregi.

Á bak við kyrr kjör byggingarverkamannanna í Ósló stendur alþjóðlega verktakafyrirtækið Caverion Group sem heldur úti 15.000 verkamönnum um gervalla Evrópu. Andlit Noregsdeildar þess fyrirtækis er Knut Gaaserud sem fullyrðir við NRK að verkamennirnir njóti allra þeirra kjara sem réttur þeirra standi til.

„Grunnlaunin eru bara fastakaupið þeirra,“ segir Gaaserud. „Þegar þeir koma til Noregs leggjast tveir þættir við launin, breytileg laun (n. variabel lønn) og „daily allowance“ eða dagpeningar. Samanlagt nær þetta upp í norsk lágmarkslaun [184,36 norskar krónur, 2.522 íslenskar].“

Rannsókn án niðurstöðu

Launaþættirnir tveir sem Gaaserud nefnir eru hins vegar að hans sögn lagðir beint inn á launareikning verkamannanna og koma því ekki fram á launaseðlum þeirra sem KPMG rannsakaði við skýrslugerð sína. „Við fylgjumst auðvitað með því að rétt laun séu lögð inn á reikninga okkar starfsmanna,“ segir Gaaserud við NRK.

Málið á sér nokkra forsögu, í haust sendi Statsbygg hóp eftirlitsmanna til Litháen sem gekk það til ætlunar að rannsaka alla undirverktaka Caverion Group þar í landi. Eftirlitsstofnun kýs enn sem komið er ekki að tjá sig um niðurstöður þeirrar rannsóknar við NRK en talsmaður verktakans Caverion segist fagna öllum rannsóknum og segir enn fremur að fyrirtækið hafi að eigin frumkvæði hafið umfangsmikla rannsókn á kjörum þeirra 69 starfsmanna sem starfað hafi á vegum þess í Noregi. Niðurstöður séu þó engar enn sem komið er.

„Við skilum skýrslum um allar okkar launagreiðslur gegnum Altinn [rafrænt samskiptakerfi launagreiðenda, skattgreiðenda og opinberra stofnana í Noregi] og tryggjum þar með að allir fái það sem þeim ber,“ svarar Gaaserud þegar NRK innir hann eftir því hvernig Caverion tryggi að starfsfólki þess uppskeri þau laun sem því ber. „Finnum við einhver frávik leiðréttum við þau tafarlaust,“ segir Gaaserud að lokum.

Petter Vellesen, formaður Byggingarverkamannasamtaka Óslóar (n. Oslo bygningsarbeiderforening), segir eftirliti Statsbygg ábótavant. Byggingarverkamenn frá Austur-Evrópu séu leiksoppur launráða í norskum byggingariðnaði.

„Við sjáum svona lagað aftur og aftur með reglulegu millibili. Merkilegt að þetta komi líka upp á yfirborðið við stórframkvæmdir á vegum hins opinbera. Statsbygg verður að gyrða sig í brók, hér bregst eftirlit þess algjörlega,“ segir Vellesen ómyrkur í máli við NRK.

Manifest greindi fyrst frá málinu

Dagsavisen

Aftenposten

E24

FriFagbevegelse

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert