Hafði bein afskipti af rannsókninni

Fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden.
Fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden. AFP

Háttsettur bandarískur stjórnarerindreki segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi haft bein afskipti af rannsókn stjórnvalda í Úkraínu á Joe Biden. Þetta kom meðal annars fram við yfirheyrslur leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í gær. 

Áður hafði Bill Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, sagt að starfsmaður sendiráðsins hefði fengið upplýsingar um að Trump þrýsti á rannsókn á Biden.

Taylor hafði áður sagt í skriflegum vitnisburði að Trump hefði sett það skilyrði fyrir aðstoð við Úkraínu að andvirði nær 400 milljóna dala að forseti landsins, Volodimír Zelenskí, fyrirskipaði rannsóknir á Biden, sem sækist nú eftir því að verða forsetaefni demókrata, og meintum afskiptum Úkraínumanna af kosningunum í Bandaríkjunum. Tvö önnur vitni hafa staðfest þetta, að sögn The Wall Street Journal. Trump óskaði eftir rannsóknunum í símasamtali við Zelenskí 25. júlí. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Taylor sagði í gær að Trump hefði rætt málið við Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu, daginn eftir samtalið við Zelenskí og spurt hann um „stöðuna á rannsóknunum“. Taylor sagði einnig að aðstoðarmaður sinn hefði spurt Sondland eftir samtalið við Trump hvaða skoðun forsetinn hefði á Úkraínu. „Sondland sendiherra svaraði að Trump forseti hefði meiri áhuga á rannsókninni á Biden,“ sagði Taylor.

Trump fylgdist ekki með vitnaleiðslunum í gær og sagði þær galdrafár og að hann væri of upptekinn til þess að eyða tíma sínum í að horfa á. 

Frétt BBC

mbl.is