Deilt um meðferð við samkynhneigð

Jon, Hans og Stian á Oslo Pride-hátíðinni 1. júlí 2017. …
Jon, Hans og Stian á Oslo Pride-hátíðinni 1. júlí 2017. Þeir sögðu mbl.is að Noregur hefði farið langan veg síðan mök karlmanna á milli voru bönnuð með lögum í landinu fram til 1972. Nú vilja ríkisstjórnarflokkarnir banna svokallaða homoterapi, meðferð til að snúa samkynhneigðum frá því sem meðal annars trúflokkar ýmsir í Noregi telja ganga gegn lögmálum ritningar sinnar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í desember mun norska Stórþingið fjalla um tillögu Verkamannaflokksins og Græningja um að banna með lögum svokallaða homoterapi sem einnig hefur verið kölluð kynferðisleg leiðrétting (n. seksuell reorientering eða konverteringsterapi) og ber að sama brunni óháð nafninu – að snúa samkynhneigðum af því sem ýmsir trúarsöfnuðir og aðrir hópar úthrópa sem kynvillu og óeðli.

Meðferðir þessar eru oftar en ekki á mörkum ofbeldis, andlegs sem líkamlegs, en þau mörk eru gjarnan yfirstigin í nafni trúarinnar eins og Arne Christian Nilsen sagði norska dagblaðinu VG frá en Nilsen sætti slíkri kynferðisleiðréttingarmeðferð frá 13 til 26 ára aldurs.

Þrír af ríkisstjórnarflokkum Noregs, Hægri, Vinstri og Framfaraflokkurinn, hafa sammælst um að leggjast á árarnar og róa í átt að því að banna meðferð við samkynhneigð í Noregi. Fjórði stjórnarflokkurinn neitar að koma nálægt slíku banni, Kristilegi þjóðarflokkurinn (KrF) með Kjell Ingolf Ropstad í forsæti, sem tók við eftir að Knut Arild Hareide var atkvæðum borinn á landsfundi síns eigin flokks í fyrra, þar sem hann barðist fyrir því að flokkurinn gengi til ríkisstjórnarsamstarfs við Verkamannaflokkinn og Miðflokkinn, neitar að styðja tillögu stjórnarflokkanna.

Þjóni engum tilgangi

Ropstad, barna- og fjölskyldumálaráðherra ríkisstjórnarinnar, ber því við að bann við kynferðislegri leiðréttingarmeðferð þjóni engum tilgangi, ofbeldi og meðferðarúrræði sem skaðað geta fólk sé þegar bannað með lögum í Noregi. „Ég sé ekki þörfina fyrir að banna eitthvað sem er þegar bannað,“ segir Ropstad við VG í dag. „Ég hef verið opinn fyrir því að fá yfirsýn og frekari vitneskju um vandamálið og hvernig unnt er að stemma stigu við skaðlegri starfsemi,“ segir hann enn fremur.

Ráðherrann segist að auki veigra sér við að leggja bann við ákveðnum skoðunum trúfélaga og einstaklinga, hlutverk ríkisvaldsins sé ekki að leggja þeim lífsreglurnar um hvers konar sannfæring þeim leyfist.

Trine Skei Grande, menningar- og jafnréttismálaráðherra fyrir Vinstriflokkinn, lætur sér fátt um andstöðu KrF finnast, flokkurinn sé aðeins peð í ríkisstjórnarsamstarfinu og það sem þegar hafi verið afhjúpað af andsamkynhneigðarmeðferðum sé svo grafalvarlegt að tafarlausrar lagasetningar sé þörf.

Hvaða afhjúpanir eru það?

Arne Christian Nilsen, 32 ára gamall hommi frá Bergen, sagði VG sögu sína í byrjun mánaðarins og hvernig hann skyldi hreinsaður af villu sinni, „í guðs nafni“ eins og VG skrifar. Dagblaðið selur sögu Nilsen í læstri áskrift en norska ríkisútvarpið NRK hefur endursagt hana að einhverju leyti. Nilsen gekkst undir homoterapi innan vébanda trúfélags frá 13 til 26 ára aldurs, meðal annars var hann látinn skrá „synd lífs míns“ á keramikflísar þar sem syndin var „hneigist að sama kyni“ og svo látinn mölva flísarnar með hamri. Hann segist hafa hugsað með sér að eina leiðin út úr þessu væri að verða „straight“, eða gagnkynhneigður, en að því var ekki hlaupið.

„Ég efast um að samfélagið geti skilið skömmina sem meðferð á borð við þessa hefur í för með sér fyrir þann sem sætir henni,“ segir Nilsen við VG. Ungu fólki er talin trú um að hneigðir þess séu synd. Ef þú getur ekki verið sá sem þú ert, hver áttu þá að vera?“ spyr Nilsen.

Umræður um bann við meðferð gegn samkynhneigð í Noregi eru á dagskrá Stórþingsins í annarri viku jólamánaðarins.

Dagbladet

Fredriksstad Blad

TV2

mbl.is