Hljóðhögg yfir Lundúnaborg

Typhoon-herþota á flugi. Mynd úr safni.
Typhoon-herþota á flugi. Mynd úr safni. AFP

Margir íbúar í London vöknuðu við háværan hvell og titring í nótt. Á Twitter má sjá færslur fólks sem greinir frá því að hafa vaknað við háværa „sprengingu“ rúmlega fjögur í nótt, en hús skulfu og fljótlega mátti heyra í lögreglusírenum. 

Það kom svo í ljós að tvær breskar herþotur bæru þarna ábyrgð, en þær tóku á loft frá Coningsby í Lincolnskíri til að hafa afskipti af flugvél sem hafði ekki svarað flugstjórn. 

Hljóðhöggið, sem er hávaðinn sem heyrist þegar höggbylgjur frá þotu á flugi á hljóðhraða eða þar yfir berast til eyrna fólks á jörðu, heyrðist víða í London, Hertfordskíri og Bedfordskíri.

Lögreglan í London staðfesti skömmu síðar að tvær breskar Typhoon-herþotur bæru þarna ábyrgð eftir að hafa fengið leyfi til að rjúfa hljóðmúrinn. 

Fram kemur á vef BBC, að herþotur breska flughersins fái aðeins heimild til að ferðast á hljóðhraða skapist neyðarástand, en það er vanalega þegar þær þurfa að elta uppi önnur loftför. 

mbl.is