Rændu 200 ferðatöskum

MS Roald Amundsen við skírnarathöfnina 7. nóvember, fyrsta tengiltvinnskip Hurtigruten. …
MS Roald Amundsen við skírnarathöfnina 7. nóvember, fyrsta tengiltvinnskip Hurtigruten. Í baksýn rísa snæviþakin fjöll Suðurskautslandsins. Hurtigruten býður 500 farþegum að greiða frá því sem nemur 660.000 íslenskum krónum fyrir 17 daga siglingu um firði Chile, Falklandseyjar og suðurskautið. Í 70 ára sögu slíkra ferða hefur útgerðin aldrei lent í ráni 200 ferðataskna farþega sinna. Það gerðist þó aðfaranótt fimmtudags. Ljósmynd/Shayne McGuire/Hurtigruten

Þegar nýjasta fley norsku útgerðarinnar Hurtigruten, skemmtiferðaskipið MS Roald Amundsen, lagðist að bryggju í Puntas Arenas í Suður-Chile á fimmtudaginn til að taka um borð farþegahóp á leið í siglingu um Suðurskautslandið, lét annar hópur til skarar skríða, ræningjar sem gerðu farangursflutningabíl farþeganna fyrirsát, beindu skotvopnum að bílstjóranum og hurfu með bílinn og 200 ferðatöskur út í nóttina.

„Bílstjórinn var einfaldlega rændur. Bíllinn fannst síðar um nóttina án þeirra 200 ferðataskna sem í honum voru,“ segir Hanne Taalesen, upplýsingafulltrúi Hurtigruten, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en bíllinn flutti farangur milli flugvallarins í Santiago og hótelsins sem væntanlegir farþegar Roald Amundsen dvöldu á.

Roald Amundsen er í 17 daga siglingu með 500 farþega um firði Chile, Falklandseyjar og að lokum Suðurskautslandið sem er vel viðeigandi enda heitir skipið í höfuðið á norska landkönnuðinum sem stóð á jarðfræðilegum suðurpól jarðarinnar ásamt föruneyti sínu 14. desember 1911.

Fimmtán farþegar hættu við eftir ránið

„Einhverjir Norðmenn lentu í þessu en ég hef ekki fengið upplýsingar um nein smáatriði enn þá,“ segir Taalesen í samtali við mbl.is í kvöld. Hún segir 15 farþega hafa ákveðið að hætta við siglinguna frá Chile til Suðurskautslandsins vegna málsins, ekki sé þó vitað hvort einhverjir Norðmenn tilheyri þeim hópi en alls eru 20 Norðmenn í farþegahópnum.

MS Roald Amundsen var skírt með viðhöfn við ískalda strönd suðurskautsins 7. nóvember og er fyrsta skip Hurtigruten sem knúið er tengiltvinnvél, eða hybrid-vél, sem gengið getur hvort tveggja fyrir díselolíu og rafmagni. „Amundsen er fyrsta skipið okkar með tengiltvinnvél, svo bætist Fridtjof Nansen í hópinn næsta ár og svo minnst þrjú önnur skip 2021,“ segir Taalesen við mbl.is.

Ferðir Hurtigruten til Suðurskautslandsins eru ekki gefins, lægsta verð er 50.000 norskar krónur sem svarar til 660.000 íslenskra króna.

Taalesen segir Hurtigruten aldrei hafa lent í öðru eins og töskuráninu þau 70 ár sem þessi gamalgróna útgerð, stofnuð 1893, hefur siglt um strendur og firði Chile.

NRK

Bergens Tidende

E24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert