Pólska lögreglan klófesti tvö tonn af kókaíni

Mateusz Morawiecki forsætisráðherra landsins greindi blaðamönnum frá málinu í dag. …
Mateusz Morawiecki forsætisráðherra landsins greindi blaðamönnum frá málinu í dag. Mynd úr safni. AFP

Pólska lögreglan kom höndum yfir tveggja tonna kókaínsendingu í vikunni, en kókaínið var líklega ætlað til sölu víða um Evrópu. Mateusz Morawiecki forsætisráðherra landsins greindi frá þessu í dag.

„Þetta er umfangsmesta smygltilraun síðustu 30 ára hið minnsta,“ sagði forsætisráðherrann við blaðamenn í Varsjá í dag og bætti því við að andvirði efnanna væri að minnsta kosti tveir milljarðar pólskra zloty, jafnvirði 63 milljarða íslenskra króna.

Pólska lögreglan hefur handtekið fjóra Kólumbíumenn, einn Írana búsettan í Þýskalandi og tvo Pólverja vegna málsins.

Kókaínið fannst í skipsfarmi í borginni Gdynia við Eystrasaltið og var falið í kalksendingu.

mbl.is