Stúlkan í leirpottinum fullfrísk

Stúlkan fannst um miðjan október í leirpotti sem var grafinn …
Stúlkan fannst um miðjan október í leirpotti sem var grafinn í jörðu. Hún hefur verið í umsjón lækna og er nú fullfrísk að þeirra mati, þó hún sé einungis 2,5 kíló. Ljósmynd/Twitter

Ný­fætt stúlku­barn, sem fannst í leirpotti sem graf­inn hafði verið í jörð í Utt­ar Pra­desh-héraði í norður­hluta Ind­lands um miðjan október, braggast vel og er orðið fullfrískt að mati lækna.

Íbúi á svæðinu fann stúlkuna fyrir algjöra tilviljun þegar hann hugðist jarða dótt­ur sína sem hafði fæðst and­vana. Þegar hann var búinn að grafa á um 90 sentimetra dýpi rak hann skófl­una í leirpott. Hann heyrði barnsgrát og tók pottinn upp og í hon­um reynd­ist stúlk­an vera. 

Þegar stúlkan fannst var hún með al­var­lega blóðeitrun og hættu­lega lágt hlut­fall blóðflaga. Hún var einungis 1,1 kíló að þyngd og talið er að hún sé fyrirburi sem fæddist á 30. viku meðgöngu. Í dag er hún rúmlega 2,5 kíló og hlutfall blóðflaga er komið í samt lag. „Hún tekur pela og er fullkomlega heilbrigð,“ segir barnalæknirinn Ravi Khanna, sem hefur annast stúlkuna. 

Lög­reglu grun­ar að hún hafi verið graf­in lif­andi með vit­und og vitn­eskju for­eldr­anna en enginn hefur gefið sig fram þrátt fyrir að málið hafi vakið mikla athygli í fjölmiðlum. Stúlkan er sem stendur í umsjón barnaverndaryfirvalda í Bareilly í Uttar Pradesh-héraði. 

Stúlkan var aðeins 1,1 kíló þegar hún fannst í leirpottinum …
Stúlkan var aðeins 1,1 kíló þegar hún fannst í leirpottinum sem var grafinn á tæplega meters dýpi. AFP

Sérfræðinga greinir á um hversu lengi stúlkan var í leirpottinum. Khanna áætl­ar að hún hafi verið graf­in í jörðu í þrjá til fjóra daga. Hann seg­ir að stúlkan hafi lifað á svo­kallaðri brúnni fitu, sem er varma­mynd­andi og afar orku­ríkt fitu­lag sem börn fæðast með. Aðrir sérfræðingar segja að hún hafi aðeins verið ofan í jörðinni í þrjá til fjóra tíma og hefði líklega bara lifað í örfáar klukkustundir til viðbótar. 

Talið er að loftgat á leirpottinum hafi séð stúlkunni fyrir súrefni ofan í jörðinni og þá hafi það einnig orðið henni til lífs að potturinn var ekki úr þykkum leir.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert