Þakkar stuðningsmönnum Verkamannaflokksins

Boris Johnson ávarpar fréttamenn utan við forsætisráðherrabústaðinn í Downingstræti.
Boris Johnson ávarpar fréttamenn utan við forsætisráðherrabústaðinn í Downingstræti. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þakkaði kjósendum Verkamannaflokksins, sem margir hverjir kusu Íhaldsflokkinn í fyrsta sinn, í sigurræðu sinni fyrr í dag. Hann lofaði því að útganga Breta úr Evrópusambandinu yrði leidd til lykta svo græða mætti þau sár sem deilunni hafa fylgt. Sagðist hann ekki myndu bregðast stuðningsmönnum. „Þið gætuð ætlað ykkur að kjósa Verkamannaflokkinn aftur næst, og ef sú er raunin þá er ég auðmjúkur yfir því að þið hafið treyst mér í þetta sinn. Ég mun aldrei taka stuðning ykkar sem sjálfsagðan hlut,“ sagði Johnson áður en hann hélt á fund drottningar.

Íhaldsflokkurinn vann stórsigur í þingkosningum sem haldnar voru í gær. Flokkurinn hlaut 365 þingmenn og hefur 80 þingmanna meirihluta, þann mesta sem flokkurinn hefur haft frá þriðju kosningum Margaret Thatcher árið 1987. Að sama skapi hlaut Verkamannaflokkurinn sína verstu útreið í áratugi og missti sæti sín í mörgum kjördæmum miðhéraða Englands, sem mörg hver hafa verið vígi flokksins um áratugaskeið.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur gefið það út að hann muni ekki leiða flokkinn í öðrum kosningum. Hann hefur þó ekki sagt hvenær hann hyggist láta af embætti, en háværar raddir eru uppi um það innan flokksins að hann geri það sem fyrst.

mbl.is