Endurtísti færslu um meint nafn uppljóstrarans

Donald og Melania Trump.
Donald og Melania Trump. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið gagnrýndur fyrir að endurtísta tísti þar sem meint nafn uppljóstrarans sem lagði inn kvörtun 12. ágúst vegna samskipta Trumps og Volodymyrs Zelenskí, forseta Úkraínu, kemur fram. 

Forsetinn deildi færslu frá notandanum @sufermom77, sem lýsir sér sem „100% Trump stuðningsmanni,“ eftir því sem fram kemur á BBC. Færslan mun hafa verið fjarlægð af Twitter-síðu forsetans. 

Trump hefur ítrekað kallað eftir því að uppljóstrarinn segi deili á sér og sitji fyrir svörum á Bandaríkjaþingi. Bandarísk alríkislög tryggja vernd og nafnleynd uppljóstrara. Lögmenn uppljóstrarans, sem er sagður starfa innan bandarísku leyniþjónustunnar, hafa varið við því að umbjóðanda þeirra stafi „líkamleg hætta“ af því að gefa sig fram, en svo virðist sem forsetinn láti sér fátt um finnast og hefur hann haldið áfram að kalla eftir nafni uppljóstrarans. 

Á meðal eldri twitter-færsla notandans @surfermom77 er færsla um að Barrack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sé múslimi og færslur sem lýsa yfir hatri í garð þeirra sem aðhyllast íslam. 

Samkvæmt AP ber aðgangur @sufermom77 þess merki að um falsaðgang sé að ræða, meðal annars vegna óvenju mikillar virkni á aðganginum. 

Samkvæmt New York Times eru færslur á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem uppljóstrarinn er nefndur á nafn bannaðar. Twitter aftur á móti er ekki með slíkar reglur og í tilkynningu frá miðlinum kemur fram að færslan hafi ekki brotið gegn reglum miðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert