Haraldur Noregskonungur á spítala vegna svima

Haraldur Noregskonungur.
Haraldur Noregskonungur. Ljósmynd/Norska konungshöllin

Haraldur Noregskonungur var lagður inn á Ríkisspítalann í Ósló í gær vegna svima. Í tilkynningu frá norsku konungsfjölskyldunni segir að veikindin séu ekki talin alvarleg og að konungurinn verði líklega útskrifaður af spítalanum fyrir helgi. 

Á mánudag stóð til að Haraldur yrði viðstaddur formlega opnun nýs olíuvinnslusvæðis en svo varð ekki og vakti það talsverða athygli. Í gærkvöldi greindi hirðin svo frá veikindum konungsins. 

Haraldur, sem er 82 ára, hefur gengist undir rannsóknir sem sýna að ekki er um alvarleg veikindi að ræða. Hann mun samt sem áður fara í tveggja vikna veikindaleyfi þegar spítalavistinni lýkur og mun Hákon krónprins gegna konunglegum skyldum föður síns á meðan.

Sonja drottning og Haraldur Noregskonungur við útför Ari Behn í …
Sonja drottning og Haraldur Noregskonungur við útför Ari Behn í dómkirkjunni í Ósló í síðustu viku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert