Úrhelli í Ástralíu slekkur gróðurelda

Úrhellisrigning er nú á austurströnd Ástralíu.
Úrhellisrigning er nú á austurströnd Ástralíu. AFP

Íbúar í Nýju Suður-Wales í Ástralíu búa nú sig undir ansi blauta daga en þar er spáð úrhellisrigningu á næstunni. Veðurstofan þar í landi hefur varað við miklum vindi, rigningu og flóðum á allri austurströnd Ástralíu. Það er skammt öfganna á milli á þessu svæði því miklir gróðureldar hafa geisað síðustu vikur og vatnsveðrið því kærkomið, þótt öllu megi vissulega ofgera. BBC greinir frá.

Í Sydney hefur vatnselgurinn orðið til þess að loka hefur þurft vegum og almenningssamgöngur farið úr skorðum, en í dag mældist mesta úrkoma í borginni í heilt ár. Þá hefur vatn flætt um götur í Byron Bay og Coffs Harbour þar sem úrkoman var 280 og 250 millimetrar.

Búist er við að það haldi áfram að rigna fram í næstu viku og vonast er til að regnvatnið slökkvi þá skógarelda sem geisað hafa á svæðinu. Samkvæmt slökkviliðinu er talið að um þriðjungur gróðureldanna hafi nú þegar slokknað en 43 eldar loga enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert