„Snilldarbragð aldarinnar“ í njósnum upplýst

Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Vestur-Þýskalands lágu á hleri hjá um 120 …
Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Vestur-Þýskalands lágu á hleri hjá um 120 ríkjum í gegnum dulkóðunarvélar frá svissneska fyrirtækinu Crypto AG, sem var í þeirra eigu. AFP

Bandaríska leyniþjónustan CIA, í samstarfi við þýsku leyniþjónustuna BNP, njósnaði áratugum saman um allt að 120 önnur ríki með því að selja þeim dulkóðunarvélar sem átt hafði verið við.

CIA og BNP áttu nefnilega svissneska fyrirtækið Crypto AG á laun, en fyrirtækið þjónustaði fjölmörg ríki um dulkóðunarlausnir allt frá síðari heimsstyrjöld og langt inn á þessa öld.

Frá þessu er greint í umfjöllunum Washington Post og þýskra og svissneskra ríkisfjölmiðla í dag, en miðlarnir hafa gögn frá CIA sem sýna fram á þetta.

Lágu á hleri hjá óvinum jafnt sem bandamönnum

Svissneska fyrirtækið hóf framleiðslu á dulkóðunarvélum fyrir Bandaríkjamenn í síðari heimsstyrjöld og varð í kjölfarið risi á dulkóðunarmarkaðnum. Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins voru Íran, Indland, Pakistan, ýmsar ríkisstjórnir í Suður-Ameríku og víðar, alls 120 ríki, jafnt óvinir sem bandamenn Bandaríkjanna og Vestur-Þýskalands.

Rússar og Kínverjar notfærðu sér þó aldrei þjónustuna vegna gruns um að Bandaríkjamenn hefðu eitthvað með starfsemi Crypto AG að gera.

Fram kemur í grein Washington Post að frá 1970 hafi CIA og bandaríska þjóðaröryggisstofnunin NSA haft tögl og hagldir á starfsemi Crypto AG, í samvinnu við þýska kollega sína hjá BNP.

Njósnarar ríkjanna tveggja „hölluðu sér síðan aftur og hlustuðu“, samkvæmt því sem blaðamaður Washington Post lýsir í umfjölluninni, en þar segir að um það bil 40% af öllum leynigögnum sem CIA komst yfir og vann úr á ákveðnu árabili hafi komið í gegnum dulkóðunarvélarnar frá Crypto AG.

Greiddu ríflega fyrir að láta njósna um sig

Í innanhússkjali CIA sem vitnað er til er þessu athæfi CIA og BNP lýst sem „snilldarbragði aldarinnar“ í njósnamálum.

„Erlendar ríkisstjórnir greiddu góðan pening til Bandaríkjanna og Vestur-Þýskalands fyrir þau forréttindi að fá þeirra leynilegustu samskipti lesin af að minnsta kosti tveimur (og jafnvel allt að fimm eða sex) erlendum ríkjum,“ segir í skjali CIA, samkvæmt umfjöllun Washington Post.

Sem dæmi má nefna að Bandaríkjamenn veittu Bretum aðgang að leynilegum samskiptum Argentínumanna í Falklandseyjastríðinu í upphafi níunda áratugarins.

Sænskt fyrirtæki sver af sér tengsl við CIA og BNP

Fyrirtækið Crypto AG er ekki til lengur, heldur var því skipt upp í tvö félög eftir að CIA seldi það á leynilegan hátt árið 2018, en dulkóðunarvörurnar sem fyrirtækið framleiddi og seldi eru eiginlega orðnar barn síns tíma með tækniframförum í þessum bransa.

Annað nýja félagið, Crypto International, er nú til rekið frá Svíþjóð. Í yfirlýsingu frá þeim í dag segir að fréttaflutningurinn af þessu háttalagi sé þeim þungbær, enda til þess fallinn að rýra trúverðuleika þeirrar dulkóðunarþjónustu sem þau bjóða upp á.

„Við höfum engin tengsl við CIA eða BND og höfum aldrei haft,“ segir í yfirlýsingu á vef þeirra í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka