Tíu tré fyrir hvern nýbura

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. AFP

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, heitir því að tíu trjám verði plantað fyrir hvern nýbura í landinu sem viðleitni til að takast á við loftslagsbreytingar. Aðgerðin er hluti af loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í síðustu viku.

„Við munum planta tíu trjám fyrir hvern nýbura, sem mun auka skóglendi landsins um 27 prósent fyrir árið 2030,“ sagði Orban í árlegri stefnuræðu sinni án þess að fara nánar út í það. Í síðasta mánuði lýsti hann aðgerðinni sem „kristilega demókratískri nálgun“ til að takast á við loftslagsbreytingar, en þann stimpil notar hann oftar en ekki um stefnumál sín. Orku- og loftslagsstefna stjórnarinnar gerir ráð fyrir „90 prósenta kolefnishlutleysi“ árið 2030, aðallega með hjálp kjarn- og sólarorku.

Virðist um ákveðna stefnubreytingu að ræða, en flokkur Orbans hefur oft virst hafa lítinn áhuga á loftslagsvánni.

Eftir að hafa upphaflega hafnað áætlunum Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050, skrifaði Orban undir þau áform í desember eftir að hafa náð samkomulagi um notkun kjarnorku.

Í stefnuræðu sini lofaði hann uppræta ólöglegar landfyllingar eigi síðar en í júlí, banna einnota plastpoka, innleiða rafmagnsstrætisvagna í borgum landsins fyrir 2022 og „styðja græn skref lítilla og meðalstórra fyrirtækja“.

mbl.is