Breiðist hratt út um Bandaríkin

Kórónuveiran breiðist hratt í Bandaríkjunum og er 1.031 látinn af völdum veirunnar þar í landi. Alls hafa verið staðfest 68.572 smit samkvæmt upplýsingum frá Johns Hopkins háskólanum. Aðeins nokkrum klukkustundum fyrr voru andlátin 827 talsins.

Miðað við fjölda látinna hefur veiran dregið 1,5% smitaðra í Bandaríkjunum til dauða. Talið er fullvíst að mun fleiri séu smitaðir en staðfestar tölur herma sem þýðir að hlutfallið er mun lægra. Bandaríkin eru nú komin í þriðja sætið, á eftir Kína og Ítalíu hvað varðar fjölda smita í heiminum. 

AFP

New York-ríki er eitt af því sem hefur orðið einna verst úti en í New York borg hafa 280 látist af völdum veirunnar. Á heimsvísu hafa rúmlega 21 þúsund látist úr COVID-19 á aðeins tæpum þremur mánuðum frá því fyrsta smit kom upp í kínversku borginni Wuhan í desember.

Í spálíkani sem þingmenn á Bandaríkjaþingi fengu að sjá fyrr í mánuðinum kom fram að væntanlega gætu á milli 70-150 milljónir Bandaríkjamanna smitast af kórónuveirunni. Ef dánartíðni smitaðra er 1% myndi þetta þýða að 700 þúsund til 1,5 milljón Bandaríkjamanna gætu látist úr COVID-19.

AFP

Árið 2018 var hjartabilun helsta dánarorsök Bandaríkjamanna og var dánarorsök 650 þúsund manns það ár. Nýrri tölur eru ekki fyrirliggjandi. Á sama ári létust 60 þúsund úr inflúensu og lungabólgu í landinu. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert