Útgöngubönn í gildi víða í Bandaríkjunum

Víða í Bandaríkjunum hafa verið sett útgöngubönn til að draga úr þeirri ólgu og ófriði sem hefur skapast eftir að lögreglumaður varð svörtum manni að bana í síðustu viku.

Á flestum stöðum hafa farið fram friðsöm mótmæli en í nokkrum borgum hafa brotist út átök. Kveikt hefur verið í bifreiðum og byggingum. Lögreglan hefur brugðist við með því að skjóta gúmmíkúlum og beita táragasi. 

Slökkviliðsmaður í Los Angeles í Bandaríkjunum sést hér sprauta vatni …
Slökkviliðsmaður í Los Angeles í Bandaríkjunum sést hér sprauta vatni í eld sem logaði í kjölfar mótmæla og átaka í borginni í gær. AFP

Fjölmenn mótmæli fóru fram í a.m.k. 30 bandarískum borgum. Í Los Angeles skutu lögreglumenn gúmmíkúlum á mannfjöldann, sem svaraði með því að kasta flöskum og leggja eld að lögreglubílum. Myndir hafa verið birtar sem sýna einstaklinga standa ofan á lögreglubílum sem búið var að skemma. Í nótt mátti svo sjá bifreiðar og byggingar í ljósum logum, að því er segir í frétt á vef BBC.  

Þessi lögreglubifreið var lögð í rúst í Los Angeles í …
Þessi lögreglubifreið var lögð í rúst í Los Angeles í gær. AFP

Í New York var tekið myndskeið af því þegar lögreglubifreið ók inn í hóp mótmælenda. Bill de Blasio, borgarstjóri New York, tók fram að lögreglumennirnir hefðu ekki átt upptökin. Bandaríska þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez segir að ummæli borgarstjórans hafi verið óviðeigandi og að hann eigi ekki að afsaka gjörðir lögreglumannanna.

Í Chicago köstuðu mótmælendur grjóti í lögreglumenn sem brugðust við með táragasi. Þó nokkrir voru handteknir. 

Óeirðalögreglumenn í fullum skrúða við Hvíta húsið í Washington í …
Óeirðalögreglumenn í fullum skrúða við Hvíta húsið í Washington í gær. AFP

Í Atlanta voru unnin skemmdarverk á byggingum í gær. Þar var lýst yfir útgöngubanni og í raun neyðarástandi á ákveðnum svæðum í þeim tilgangi að vernda íbúa og eignir. 

Trump hvetur til stillingar

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur hvatt landsmenn til að slíðra sverðin og græða sárin í kjölfar dauða George Floyd. Trump bætti því þó við að hann muni ekki leyfa æstum múg að ráða ríkjum í þessu ástandi. 

Fyrrverandi lögreglumaður hefur verið ákærður fyrir manndráp þegar hann beitti Floyd, sem var 46 ára gamall, hörku við handtöku í Minneapolis sl. mánudag. 

Frá átökum sem brutust út á milli mótmælenda og lögreglu …
Frá átökum sem brutust út á milli mótmælenda og lögreglu í Atlanta. AFP

Lögreglumaðurinn, Derek Chauvin, er 44 ára gamall og hvítur á hörund. Hann mun mæta fyrir dómara á morgun. 

Myndskeið var birt af því þegar Chauvin sést leggja hné sitt á háls Floyds í nokkrar mínútur með þeim afleiðingum að Floyd missti meðvitund og lést. Hann hafði þá beðið lögreglumanninn um að fara af sér þar sem hann gæti ekki andað. 

Þrír lögreglumenn til viðbótar hafa verið reknir vegna málsins. 

Frá Denver í Bandaríkjunum, þar sem lögregla beitti táragasi til …
Frá Denver í Bandaríkjunum, þar sem lögregla beitti táragasi til að dreifa mannfjöldanum. AFP

Mikil ólga í Bandaríkjunum

Gríðarleg reiði ríkir í Bandaríkjunum vegna málsins en þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögreglumenn verða óvopnuðum svörtum Bandaríkjamönnum að bana. Samtökin Black Lives Matter hafa barist fyrir breytingum, en Floyd hefur nú bæst í hóp svartra manna sem hafa fallið fyrir hendi lögreglu. Má þar m.a. nefna Michael Brown í Ferguson og Eric Garner í New York. 

Málið snýst þó ekki síður um þann félagslega og efnahagslega ójöfnuð sem ríkir í Bandaríkjunum og aðskilnaðarstefnu, þá ekki síst í Minneapolis. 

mbl.is