Hentu styttu af þrælasala í höfnina

AFP

Mótmælendur í Bristol rifu niður styttu af þekktum þrælasala og hentu henni í höfnina í borginni í dag, en þar hefur kynþáttamisrétti verið mótmælt um helgina líkt og víðar um heim.

Á myndskeiðum sem tekin voru á vettvangi má sjá hóp fólks binda reipi um háls styttunnar af Edward Colston og fella hana til jarðar. Síðan sést fólkið stappa á henni í nokkrar mínútur áður en haldið er af stað með styttuna og henni varpað í höfnina við mikinn fögnuð nærstaddra. Bristol liggur við ána Avon innarlega í Bristol-flóa. 

Áður var búið að hella rauðri málningu á andlit Colstons. „Í dag varð ég viti að sögulegum atburði,“ skrifar William Want, einn þeirra sem fylgdist með, á Twitter.

„Styttan af þrælasalanum Edward Colston frá Bristol, rifin niður, eyðilögð og varpað í ána. #BlackLivesMatter.“

Rannsaka atvikið

Innanríkisráðherra Bretlands, Priti Patel, gagnrýnir skemmdarverkið harðlega og lögreglan í Bristol hefur heitið því að rannsaka atvikið. 

Að sögn lögreglustjórans í Bristol, Andy Bennett, tóku um 10 þúsund manns þátt í mótmælum í borginni. Flestir þeirra hafi tekið þátt til að ljá ójafnrétti og óréttlæti rödd sína og gert það friðsamlega og með sæmd að sögn Bennett. „Hins vegar var lítill hópur fólks sem greinilega er sekur um saknæmt skemmdarverk með því að fella styttu skammt frá höfninni í Bristol,“ segir Bennett. 

Flutti tugþúsundir manna frá V-Afríku sem þræla

Fjölskylda Colston var mjög auðug og hagnaðist á kaupskipaútgerð. Hann varð síðar þingmaður og hafði orð á sér sem mannvinur. Hann gaf mikið fé til mannúðarmála, svo sem skóla og sjúkrahúsa í Bristol og London. Styttan af Colston stóð við Colston Avenue og eins hefur borgin nefnt skóla eftir honum. Hann lést árið 1721.

Auður Edward Colston óx mjög á þeim tíma sem hann starfaði hjá konunglega afríska fyrirtækinu, Royal African Company, sem var í einokunarstöðu þegar kom að viðskiptum við vesturströnd Afríku enda stofnað fyrir atbeina Englandskonungs, Karli II. Svo sem viðskipti með gull, silfur, fílabein og þræla. Á þeim tíma sem hann starfaði sem einn af lykilstjórnendum félagsins, 1680-1692, flutti félagið um 84 þúsund karla, konur og börn frá Vestur-Afríku sem þræla. Af þeim dóu um 19 þúsund á ferðalaginu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert