Óska eftir aðstoð Breta vegna Andrésar

Andrés prins 19. janúar síðastliðinn.
Andrés prins 19. janúar síðastliðinn. AFP

Bandarísk yfirvöld hafa farið þess á leit við Breta að þau fái að yfirheyra Andrés Bretaprins vegna tengsla hans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur óskað formlega eftir aðstoð Breta varðandi yfirheyrsluna, að sögn The Sun

Andrés, sem er sextugur, hefur hingað til neitað að svara spurningum saksóknara í New York vegna glæparannsóknar í tengslum við Epstein og hefur neitað því harðlega að hafa gert nokkuð rangt.

Hingað til hefur verið talið að Andrés gæti orðið hluti af dómsmáli eða -málum fórnarlamba Epstein í Bandaríkjunum. Eitt þeirra, Virginia Roberts Giuffre, segist hafa haft kynmök með Andrési í þrjú skipti á árunum 2001 til 2002, þar af tvisvar sinnum þegar hún var undir lögaldri. Andrés hefur neitað þessu.

Núna hefur bandaríska dómsmálaráðuneytið óskað eftir aðstoð breskra stjórnvalda í málinu í gegnum MLS-sáttmálann á milli landanna sem er eingöngu notast við í tengslum við rannsókn á glæpamálum.

mbl.is