Lofar hámarkshraða á Autobahn

130 kílómetra hraði er viðmið, en ekki hámarkshraði, á þýskum …
130 kílómetra hraði er viðmið, en ekki hámarkshraði, á þýskum hraðbrautum. Því vill leiðtogi Græningja breyta.

Komist Græningjar til valda í næstu þingkosningum í Þýskalandi verður hámarkshraði leiddur í lög á hraðbrautum landsins, ef marka má formann flokksins, Robert Habeck.

Ef allt fer að hans óskum eru dagar hinnar alfrjálsu Autobahn-hraðbrautar taldir. Víða á hraðbrautum landsins eru engin hraðatakmörk þó að vissulega sé í gildi viðmiðunarhámarkshraði upp á 130 km/klst (þ. Richtgeschwindigkeit). Stjórnmálaleiðtoginn vill halda í það hraðaviðmið, nema ganga skrefinu lengra og gera það að löglegu takmarki. 

„Þetta verður líklega fyrsta aðgerð nýrrar ríkisstjórnar, ef Græningjar eru hluti af henni. Í Þýskalandi eru ekki mannréttindi að bruna um á bílnum sínum,“ sagði Habeck.

Robert Habeck, formaður Græningjaflokksins.
Robert Habeck, formaður Græningjaflokksins. AFP

Græningjar hafa verið í stjórnarandstöðu á þessu kjörtímabili í þinginu og lagt fram frumvarp á þessa leið sem náði ekki fram að ganga. Nú eru þeir hins vegar í góðri stöðu þegar kemur að því að mynda stjórn eftir næstu kosningar: Þeir mælast með 18,3% fylgi, næststærstir á eftir Kristilegum demókrötum með 38,3%.

„Hver er enn að tala gegn þessu?“

Það er síður en svo útilokað að Græningjar, sem eru að upplagi róttækur umhverfisflokkur sem í seinni tíð hefur færst ögn inn að miðju, gangi til viðræðna við íhaldsflokkinn eftir næstu kosningar og mynduðu þannig tveggja flokka ríkisstjórn með 56,6% þingsæta. 

Eins og gefur að skilja eru þetta umdeild áform sem áður hafa mætt mikilli mótstöðu en Habeck segir í þættinum þar sem hann lét þessi orð falla að nú sé borðleggjandi að klára málið, enda sé ekki einu sinni félag þýskra bifreiðaeigenda á móti tillögunni. „Hver er enn að tala gegn þessu?“ velti formaðurinn fyrir sér.

Ráðstöfun sem þessi á að geta hlíft umhverfinu við 1,9 milljónum tonna af koltvíoxíðsútblæstri, segir Spiegel, og mun það vera veigamikil röksemd í málflutningi Græningja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert