650 þúsund dauðsföll og 16,3 milljónir smita

Að minnsta kosti 650 þúsund eru látnir og 16,3 milljónir jarðarbúa hafa fengið það staðfest að hafa smitast af kórónuveirunni frá því að veiran greindist fyrst í kínversku borginni Wuhan undir lok síðasta árs. Kórónuveiran hefur greinst í 196 löndum og sjálfstjórnarsvæðum. Af þeim sem hafa smitast eru að minnsta kosti 9,2 milljónir búnar að ná bata. 

Tekið er fram í samantekt AFP-fréttastofunnar að í sumum löndum eru aðeins tekin sýni úr þeim sem eru alvarlega veikir af COVID-19. 

Í gær greindust 318.757 ný smit í heiminum og 3.914 létust. Flest dauðsföll voru á Indlandi, Brasilíu og Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum eru smitin 4.234.140 talsins og af þeim eru 146.935 látnir. 

Í Brasilíu eru 87.004 látnir og 2.419.091 staðfest smit. Í Bretlandi eru tæplega 46 þúsund af þeim tæplega 300 þúsund sem hafa greinst með veiruna látnir. Í Mexíkó eru tæplega 44 þúsund látnir af þeim 391 þúsund smituðu. Á Ítalíu eru dauðsföllin um 35 þúsund talsins en rúmlega 246 þúsund hafa greinst með staðfest smit. 

Í Evrópu eru dauðsföllin rúmlega 208 þúsund talsins en staðfest smit rúmlega þrjár milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert