Hafa áhyggjur af fjölgun smita meðal ungs fólks

Heilbrigðisyfirvöld víða um heim, meðal annars hér á landi, hafa …
Heilbrigðisyfirvöld víða um heim, meðal annars hér á landi, hafa varað við því að ungt fólk sé að verða of kærulaust þegar kemur að kórónuveirufaraldrinum. AFP

Heilbrigðistarfsmenn víða um heim vara við því að ungt fólk sé að verða of kærulaust þegar kemur að kórónuveirufaraldrinum. 

Yfirvöld í fjölmörgum löndum hafa hægt og rólega verið að aflétta sóttvarnatakmörkunum og í kjölfarið hafa skemmti- og veitingastaðir sumstaðar troðfyllst af unglingum og ungu fólki. Þar sem samkomustaðir eru enn lokaðir hefur ungt fólk víða brugðið á það ráð að halda einkasamkvæmi eða koma saman á óskipulögðum viðburðum á ströndum, í almenningsgörðum og víðar. 

Í bresku borginni Manchester söfnuðust þúsundir saman í rave-partý þar sem áfengi var um hönd og fjölmargir virtu reglur um grímuskyldu og fjarlægðartakmarkanir að vettugi. Samskonar viðburðir hafa farið fram víðar í Evrópu, meðal annars í almenningsgörðum í Parísarborg í Frakklandi, og tilraunir lögreglu til að koma í veg fyrir slíkar samkomur virðast þýðingarlitlar. 

Afleiðingar þessa er gríðarleg fjölgun smita meðal ungs fólks í mörgum löndum og undanfarið hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ítrekað reynt að biðla til ungs fólks um að virða reglur. 

Ekki ólíkt því sem uppi er hér á landi, er meirihluti nýrra smita í Kanada meðal ungs fólks. Í Sviss eru um 40-50% nýrra smita síðasta hálfa mánuðinn á meðal ungs fólks og fjölmargar borgir í Frakklandi hafa séð mikla aukningu smita meðal ungra. 

Yfirvöld í Sviss og víðar hafa brugðist við með því að gera skemmtistöðum og börum að loka dyrum sínum að nýju. Þá hafa yfirvöld í Madrid á Spáni brugðist við með nýrri auglýsingu sem á að ná til ungs fólks. Í auglýsingunni má sjá hóp fólks drekka bjór á bar og dansa síðan á skemmtistað áður en auglýsingin skiptir yfir á sjúkling í öndunarvél á sjúkrahúsi og loks líkbrennsluhús. 

mbl.is