Yfir 60 saknað í Beirút: Hezbollah á svæðinu

Starfsfólk almannavarna í Líbanon við leit í rústum. Talið er …
Starfsfólk almannavarna í Líbanon við leit í rústum. Talið er að um 300.000 íbúar Beirút hafi misst heimili sín í sprengingunni. AFP

Yfir 60 er enn saknað í Beirút, fjórum dögum eftir að fleiri en 150 létust í stórfelldri sprengingu við höfnina. 

„Tala látinna er nú 154. Þar af eru 25 sem enn hafa ekki verið borin kennsl á,“ sagði starfsmaður heilbrigðiseftirlits Líbanons í samtali við AFP í dag. „Til viðbótar er fleiri en 60 enn saknað.“

Eyðileggingin í Beirút er gífurleg og ástandið þar sagt skelfilegt.
Eyðileggingin í Beirút er gífurleg og ástandið þar sagt skelfilegt. AFP

Heilbrigðisráðherra Líbanons sagði í gær að að minnsta kosti 120 af þeim 5.000 sem særðust í sprengingunni á þriðjudag væru þungt haldnir og í bráðri hættu. 

Líbanskur maður fjarlægir bifreið sína af eyðilögðu svæði í Beirút. …
Líbanskur maður fjarlægir bifreið sína af eyðilögðu svæði í Beirút. Fyrir sprengingarnar bjuggu margir íbúar Líbanons við mjög slæm kjör vegna efnahagsástandsins í landinu. Hjálparsamtök óttast að í kjölfar sprenginganna muni fólk búa við enn verri kjör. AFP

Hollenskri björgunarsveit haldið frá svæðinu en fólk Hezbollah mætt

Leitar- og björgunarsveitir, slökkviliðsmenn og heilbrigðisstarfsmenn héldu áfram að leita í rústum þess sem áður var höfnin í Beirút í gær, föstudag. Á svæðinu voru einnig óeinkennisklæddir einstaklingar sem ekki er vitað til að sinni opinberum störfum. 

Franskt björgunarsveitarfólk er á svæðinu og aðstoðaði við leit í …
Franskt björgunarsveitarfólk er á svæðinu og aðstoðaði við leit í gær. AFP

Þegar alþjóðlegar björgunarsveitir komu til Beirút til að aðstoða í gær virtist vettvangurinn sífellt ruglingslegri en þar voru bæði sjúkrabílar og ómerktar sendibifreiðar. Hollenskri björgunarsveit var haldið frá svæðinu af líbönskum embættismönnum sem héldu því fram að hundarnir sem voru með í för sveitarinnar væru ekki leyfðir.“

„Síðan sendu þeir björgunarsveitina á svæði sem þarf í raun ekki að leita á,“ sagði einn embættismaður á svæðinu í samtali við Guardian. „Það hefur vakið tortryggni margra hér. Hezbollah [stjórnmálaflokkur sem víða er skilgreindur sem hryðjuverkasamtök] hefur sent sitt fólk og allir hér spyrja sig hvers vegna það er.“

mbl.is