„Stöndum frammi fyrir mjög alvarlegri þróun“

AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að mikil fjölgun kórónuveirusmita vítt og breitt um Evrópu eigi að vera mönnum þörf áminning um hve alvarlegt ástandið er. 

Hans Kluge, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WHO, segir að undanfarnar tvær vikur hafi nýjum tilfellum farið ört fjölgandi í álfunni. Talan hafi í raun tvöfaldast í um helmingi ríkja Evrópusambandsins. 

„Við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegri þróun,“ sagði hann. 

Hans Kluge.
Hans Kluge. AFP

Alls hafa hátt í 30 milljón kórónuveirusmit greinst á heimsvísu að því er segir á vef BBC. Þá hafa alls 942.000 manns látist af völdum Covid-19 frá því veirunnar varð fyrst vart í Kína seint á síðasta ári. 

Kluge, sem er staddur í Kaupmannahöfn, segir að 300.000 ný smit hafi verið tilkynnt í Evrópu í síðustu viku. Undanfarið hafi vikuleg tilfelli verið fleiri en þau voru í mars þegar faraldurinn var í hæstu hæðum. 

„Þó að þessar tölur gefi til kynna að umfang skimana sé mun meira, þá sýna þær einnig hversu hratt smit eru að dreifast í álfunni, sem er sláandi,“ sagði hann við blaðamenn. Þetta eigi að vera öllum þörf áminning um það hversu alvarleg staðan sé enn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert