Hefur áhyggjur af örum vexti smita

Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur miklar áhyggjur af fjölgun nýrra …
Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur miklar áhyggjur af fjölgun nýrra smita í landinu. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur miklar áhyggjur af örum vexti nýrra kórónuveirusmita í landinu. Hún hvetur landsmenn til þess að fylgja sóttvarnareglum, þar á meðal að nota grímur ef ekki er hægt að framfylgja fjarlægðarreglum.

Undanfarið hafa um tvö þúsund ný smit verið staðfest daglega í Þýskalandi og ef þróunin er sú sama og nú er sé hætta á að um jólaleytið verði þau 19.200 á hverjum degi. Á morgun mun Merkel funda í gegnum fjarfundarbúnað með ráðherrum sambandsríkjanna 16 þar sem rætt verður um aðgerðaáætlun til að fækka smitum á nýjan leik. 

Eftir að fólk fór að ferðast að nýju, einkum sumarleyfisfarar, hefur smitum fjölgað hratt. Á sama tíma hefur verið dregið úr samkomutakmörkunum sem einnig hafði áhrif. Merkel segir að ríkið þurfi að forgangsraða þegar kemur að aðgerðum. Tryggja þurfi að efnahagskerfið haldist gangandi, skólar og leikskólar séu opnir. Knattspyrnan er ekki forgangsatriði hefur Bild eftir Merkel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert