Svíar stefna að rýmkun reglna

AFP

Sænsk stjórnvöld hafa ákveðið að rýmka reglur um fjöldatakmarkanir á samkomum en alls hafa 5.880 látist af völdum COVID-19 í Svíþjóð, 3.217 karlar og 2.663 konur. Rúmlega 90 þúsund hafa greinst með veiruna frá því hún kom fyrst til landsins. Af þeim hafa 2.599 þurft að leggjast inn á gjörgæsludeildir sjúkrahúsa.

64 nemendur við háskólann í Västerås eru með staðfest smit og eru smitin rakin til partýhalds við upphaf skólahalds í haust. Fyrstu smitin komu upp meðal hagfræðinema eftir að haldið var óopinbert teiti fyrir fyrsta árs nema í haust. Yfirvöld hvetja alla þá sem tóku þátt í partýinu eða hafa átt samneyti við þá smituðu að halda sig heima.

Að minnsta kosti 10 nemendur við háskólann í Linköping hafa einnig verið greindir með smit eftir nemendapartý að því er segir í frétt The Local.

Innanríkisráðherra Svíþjóðar, Mikael Damberg og menningar- og íþróttamálaráðherra, Amanda Lind, kynntu breytingar á fjöldatakmörkunum á samkomum á blaðamannafundi í morgun. Á viðburðum þar sem fólk situr, svo sem í leikhúsum, tónleikum og á íþróttaleikjum, mega allt að 500 manns koma saman svo lengi sem það er að minnsta kosti 1 metri á milli fólks. Breytingin tekur gildi um miðjan október. Jafnframt mega allt að 200 koma saman á veitingastöðum svo lengi sem sæti eru fyrir alla. Fleiri breytingar eru fyrirhugaðar, svo sem varðandi útimarkaði, íþróttaviðburði og skemmtigarða.

Sjá nánar á SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert