Áfengisneysla kvenna eykst í faraldrinum

Drykkja kvenna í Bandaríkjunum jókst eftir að kórónuveirufaraldurinn fór af …
Drykkja kvenna í Bandaríkjunum jókst eftir að kórónuveirufaraldurinn fór af stað. AFP

Áfengisdrykkja kvenna hefur aukist í Bandaríkjunum eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst. Samkvæmt niðurstöðum könnunar JAMA Network Open þar sem 1.500 konur svöruðu um áfengisneyslu sína.

Samkvæmt könnuninni drukku konur eitthvað áfengi 5,4 daga mánaðar að meðaltali, samanber 4,6 daga að meðaltali árið 2019. Þá fjölgaði þeim dögum sem konur drukku mikið úr 0,4 dögum á mánuði upp í 0,6 daga eftir að faraldurinn fór af stað. Í tilfelli kvenna var mikil drykkja metin sem fjórir drykkir eða fleiri yfir nokkrar klukkustundir.

Könnunin stóð yfir frá maí til júní á þessu ári, en þá höfðu einhverjir barir og veitingastaðir opnað á ný. Viðmiðið var önnur könnun sem gerð var í apríl til júní 2019.

Gagnafyrirtækið Nielsen hafði áður birt tölur fyrir Bandaríkin þar sem kom fram að áfengissala hefði aukist um 21% hjá öðrum söluaðilum áfengis en börum og veitingastöðum ef miðað væri við árið áður.

Niðurstöður JAMA bentu einnig til þess að karlmenn hefðu aukið drykkju sína, en gögnin voru þó ekki jafn afgerandi og hjá konunum. Þó var enn ljóst að drykkja þeirra væri meiri en kvenna, með 23 drykki á mánuði að meðaltali á móti 15 drykkjum hjá konum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert